4.9.2007 | 10:02
Haustið er komið
3.9.2007 | 21:32
Þankar
Helgin er liðin og hversdagsleikinn tekinn við. Það var mjög gaman hjá okkur hér á laugardagskvöldið þegar ég loksins efndi loforð mitt um að bjóða Birgi í mat. Við hringdum líka í Gunna og Önnu en Gunni var þá einn heima við buðum honum auðvitað í mat líka sem sagt ég ein með þeim körlunum, það skipti mig þó engu máli því mér þótti ég bara í góðum félagsskap. Lambið á grillinu klikkaði ekki og rauðvínið rann ljúflega niður með því. Eftir mat fóru þeir svo að taka lagið félagarnir og fljótlega bættist sá fjórði við en það var Baldvin sem býr hér hinumegin við götuna. Biggi tók auðvitað í gítarinn og hinir sungu með. Eins og góðra manna er siður þá var hætt þegar leikar stóðu sem hæst þannig að það verður bara gaman að endurtaka þetta síðar. Það fer auðvitað að styttast í að kóræfingar hefjist hjá þeim köppum og þá líka meira um að menn hittist og geri sér glaðan dag.
Á sunnudag fórum við í langan göngutúr komum við í Bakaríinu við brúna og fengum okkur kaffi. Löbbuðum svo heim og fórum hreinlega í sólbað á þessum öðrum degi september mánaðar. Þvílík blíða sem var hér þann daginn. Skömm að hafa ekki nennt í berjamó það er ekki víst að það komi svona blíða á næstu dögum. Ég sem á eftir að tína hrútaber í hlaup.
Jæja ég er enn að bræða með mér hvort ég segi upp í vinnuni um næstu mánaðarmót eða hvað en það mun skýrast nú á allra næstu dögum. Það er ekki margt í boði hér um þessar mundir en það er alltaf hægt að fara í útlegð suður eða hvað sem er. Ég gæti t.d. bjargað börnunum sem vantar gæslu eftir skóla í Reykjavík:)
Vinir og fjölskylda | Breytt 4.9.2007 kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.8.2007 | 17:47
Mánaðamót
Hvað er þetta með mánaðamót þau eru sífellt að skella á. Er það bara þegar maður eldist sem manni finnst tíminn svona fljótur að líða.
Ég er bara búin að vera heima í 5 daga en er strax farin að sakna litlu fjölskyldunnar í borginni. Aðalheiður Karen var hjá háls nef og eyrnalækni í dag og á að fara í nefkirtla töku á fimmtudag og þá á jafnframt að taka rörin úr eyrunum hennar. Halldóra Friðný á svo að fara í hálskirtlatöku 25 september þannig að það er nóg að gera á þeim bæ. Dúi er líka að drepast í bakinu svo þetta er ekki alveg nógu sniðugt ástand hjá þeim. En vonandi rætist úr þessu öllu fljótt og allir verða hressir.
Hér eru nú samt allir hressir augun mín orðin fín og allt í góðu standi. Heimir og Eva eru bæði byrjuð í skólanum og virðast bara ánægð með það þannig að allt er í góðu.
Mamma fór suður á þriðjudag með Ásu og Hans og kemur ekki heim fyrr en eftir helgi. Pabbi hefur verið heima milli þess sem hann veiðir og týnir ber.
Helgin verður örugglega fín þar sem við erum að fara út með minni vinnu í kvöld og ætlum svo að fá góðan gest í mat annað kvöld.
Þar til næst over and out
Vinir og fjölskylda | Breytt 1.9.2007 kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.8.2007 | 08:13
Góðir gestir og fl.
Í gærkveldi fengum við góða gesti í mat þ.e. Ásu systur hennar mömmu og Hans manninn hennar en þau hafa verið búsett í Svíþjóð frá því að þau giftust 1970 eða u.þ.b. Mamma og pabbi voru auðvitað líka. Þetta var yndisleg kvöldstund sem ég var mjög ánægð með því ég hélt að þau hjón yrðu kannski farin suður aftur þegar ég kæmi heim.
Augun eru annars í góðum gír ég fór í vinnu í gær og var þar í 8 tíma þannig að ég tel það bara gott. Heimir og Eva byrjuðu bæði í skólanum í gær og svo byrjar Heimir að vinna í Hagkaup í dag. Þá fer nú lífið að verða komið í eðlilegt horf eftir sumarið. Reyndar er pínulítið skrítið að vera ekki á leið í skóla núna. Enda hef ég undanfarið skoðað öll þau námskeið sem auglýst hafa verið hvort heldur er í stjórnun eða bókhaldi. Held nú samt að það séu allir sáttir við að ég verði nú bara róleg með það í vetur.
Þegar ég flaug norður á sunnudaginn varð skotta mín ekki kát hún vildi sko fara með ömmu í flugvélina og gat ekki meðtekið að það væri ekki hægt núna enda ekki skrítið maður skilur ekki allt þegar maður er tveggja ára. En hvað um það ég vona að ég sjái þau fljótlega aftur.
Um næstu helgi stendur til að fara út að borða hér í vinnunni það á að fara í Gamla Lund og borða þar, ekki veit ég hvað verður fleira á dagskrá en það verður eflaust eitthvað skemmtilegt. Allavega ætla ég að skemmta mér og vona að það verði góður kjarni sem mætir þarna. Þetta er nokkurskonar árshátíð hér í Ráðhúsinu sem átti að vera síðastliðið vor en frestaðist alltaf vegna veðurs því þá stóð til að fara út í Hrísey.
Höfum þetta ekki lengra að sinni það þarf að vinna
24.8.2007 | 11:16
Lasik
Jæja nú er það fyrsta færsla eftir lasik aðgerðina sem heppnaðist mjög vel. Ég nota eingöngu sólgleraugu í dag þarf að hafa þau þegar ég er úti næstu 2 vikur. Gaman sér í lagi þegar það rignir. Aftur á móti hef ég ekki átt sólgleraugu fyrr en nú síðan ég var barn Ég sat í gær og horfði á sjónvarp og las texta á sjónvarpinu án þess svo mikið sem píra augun sem ég gerði þó svo að ég væri með gleraugun á nefinu þannig eð ég segi bara ef þið eruð í vafa um að fara í svona aðgerð látið slag standa ef þið fáið grænt ljós hjá augnlækninum þetta er minna mál en að fara til tannlæknis og líka minna mál en að fara í blóðprufu. Ætla nú samt ekki að skrifa meira í dag því ég á ekki að horfa mikið í tölvuskjá strax. Læt fylgja hér mynd af mér með fínu gleraugun sem maður skartar fyrsta daginn eftir aðgerð Aðalheiður Karen segir þetta vera íþróttaálfs gleraugu.
21.8.2007 | 13:28
Á leið í flug
Þá er að koma að því, fer í flug eftir þrjá tíma og ætla að njóta það sem eftir lifir dags með dótturinni, tengdasyninum og ömmuskottunni. Aðgerðin er svo á morgunn og þá er vonandi lokið 37 ára veru gleraugna á mínu nefi allavega í bili:)
Eva María er að koma í dag þannig að hún hugsar allavega um Heimi og Geiri ekki í vandræðum með sjálfan sig. Þegar Heimir er búin að fara til augnlæknis á föstudag ætla ég að láta hann fara í Griffil að ath. skólabækur skilst að þær séu mikið ódýrari þar en hér fyrir norðan. Fúlt samt ef ekki er hægt að hafa svipað verðlag á þessum bókum.
Það gerist ekkert í atvinnumálum hjá mér enn. Öll spennandi störf sem eru auglýst,eru í Reykjavík eða á því svæði. Kannski maður endi á suðurhorninu eins og hinir. Ég er líka orðin eitthvað verri því ég skoða endalaust hvað er í boði í endurmenntun og öðru slíku sem ég gæti haft gagn og gaman af. Hélt að ég hefði heitið því um síðustu áramót að fara ekki í meiri skóla. Ég held í sannleika sagt að ég hafi verið orðin svo þreytt þá að ég hafi bara ekki getað hugsað mér meira nám. Allavega þá hef ég rétt á að skipta um skoðun eins og aðrir.
Jæja ætla ekki að hafa þetta lengra læt heyra frá mér þegar ég kem heim aftur
17.8.2007 | 08:21
Bráðum verða komin jól
Svei mér þá nú er alveg að koma haust og þá er nú stutt í jólin. Ástæða þess að ég er í þessum pælingum núna er að mér finnst tíminn fljúga áfram þessa dagana. Ættlaði að vera fyrir löngu búin að skrifa um útileguna og Fiskidaginn á Dalvík sem fram fór um síðustu helgi en tíminn hefur flogið svo nú er að koma helgi aftur.
Fiskidagurinn er merkilegt fyrirbrygði ég hef ekki áður farið í súpu á föstudagskvöldinu en gerði það núna ásamt stöllum mínum úr HA og mökum. Fyrst fengum við yndislega súpu hjá Marsý en fórum svo út að rölta. Þó svo að það hafi ekki verið nein læti kann ég aldrei við að sjá fólk með börn með sér þegar það er að staupa sig hvað þá þegar það gengur með kerru eða vagn með sígarettu í annarri og bjórflösku í hinni. Þetta er bara mín skoðun. Þetta er samt skemmtileg uppákoma og gaman að koma þarna.
Annars vorum við í útilegu í Árskógi í skemmtilegum hópi Keldhverfinga og maka þeirra. Við tjölduðum áður en við fórum í súpuna á föstudeginum, veðrið var svo sem ekki alveg það besta en allt í lagi samt nema á laugardagskvöldinu þá rigndi en það var ekki kalt að sofa og við tókum upp þurrt á sunnudeginum. Ég á kannski eftir að lauma inn myndum frá þessari útilegu þar sem rifjaðir voru upp gamlir tímar, sagt frá því sem er á döfinni og lagt á ráðin með að gera þetta að markvissum viðburði. Takk fyrir þessa helgi öllsömul.
Jæja nú þarf ég að finna eitthvað til að gleðja Geira minn með á morgunn því þá á hann afmæli karlinn. Þar til næst over and out
10.8.2007 | 07:52
Mál að linni
Er ekki komin tími til að hætta að þvarga yfir verslunarmannahelgini og viðurkenna að það hafði ekki mikil áhrif að setja aldurstakmark á tjaldstæðin. Veðurspáin var ömurleg og veðrið bauð ekki uppá útilegu allavega ekki á laugardag. Nú aftur á móti má ekki gleyma því að menn sem búa nálægt svæðum þar sem til að mynda tjaldstæði eða skemmtistaðir eru verða alltaf fyrir ónæði, það var ekki lítið búið að fara fram á einhverjar aðgerðir í sambandi við Vélsmiðjuna og Oddvitann hér í bæ en það voru íbúar við Strandgötu og annarra nærliggjandi staða sem voru óánægðir og eru örugglega enn. Hvað var gert fyrir þá? Var ekki bara gefið í skyn að menn skyldu bara selja og flytja ef þeim líkaði ekki að búa í skarkalanum. Jæja þetta er raus ég bý ekki nálægt skemmtistað né tjaldsvæði þannig að ég verð ekki fyrir ónæði, Gæti heldur aldrei búið á þessum stöðum því ég er svo svefnstygg.
Eftir vinnu í dag ætlum við skötuhjúin að láta okkur hafa það að fara í útilegu svo við getum skemmt okkur vel hvort heldur er með Dalvíkingum á Fiskidögum, Eyfirðingum á handverkshátíð eða Keldhverfingum í tjöldum gaman, gaman.
Bara að lokum hættum að þvarga um verslunarmannahelgina. Þetta er orðið hallærislegt.
Góða helgi
8.8.2007 | 21:32
Margt í pípunum þessa dagana
Ýmislegt hefur verið gert síðustu daga. Um þessa yndislegu verslunarmanna helgi vorum við aðallega heimavið enda veðrið ekki til mikillar útiveru að mínu mati. Fórum þó í dýragarðin á Krossum á laugardag og skemmtum okkur vel. Aðalheiður Karen kunni vel að meta öll dýrin þar og einnig leikfanga bílana sem voru þar. Ekki má heldur gleyma ísnum sem daman fékk í 6°hita og rigningu + vöflum með rjóma. Eftir veruna á Krossum var keyrt niður á Hjalteyri og svo heim að Búlandi þar sem við kíktum aðeins heim á hlað. Veðrið var sem sagt leiðinlegt en dagurinn engu að síður góður. Um kvöldið fórum við skötuhjúin í partý til Sillu frænku og svo á Vélsmiðjuna. Ég kem seint með að skilja hvað fullorðið fólk er að hugsa sem fer með glösin sín út á dansgólf og brýtur þau þar er að hugsa. Allavega glerbrot og klístur á gólfum gerði það að verkum að ég fílaði engan vegin að staldra lengi við þarna.
Á Sunnudaginn fórum við aðeins í bæinn og hittum þar Erlu, Má og Hilmar buðum þeim til okkar í mat þannig að það voru 11 í mat þann dag. Grilluðum og höfðum það gott. Þau fóru svo ásamt Sigurgeir á brekkusöng, Halldóra og Dúi fóru í bíó og unga parið á rúntinn. Við nöfnurnar vorum heima og amma gamla kom skvísuni á skikkanlegum tíma í bólið.
Mánudagurinn fór í þvotta og húsverk hjá mér, Sigurgeir og Dúi gengu á Ysta Víkurfjall og þær mæðgur voru heima við. Heimir og Eva fóru á Siglufjörð eftir hádegið og Halldóra pakkaði niður, þau ætluðu suður kl. 17. Það breyttist og þau borðuðu kvöldmat hjá okkur ásamt Eyjólfi og börnum og mömmu og pabba. Litla fjölskyldan lagði ekki af stað fyrr en rúmlega 8 og var ekki komin suður fyrr en kl. eitt um nóttina. En þessi ágæta helgi er að baki.
Nú er beðið eftir þeirri næstu. Það er mæting í súpu hjá Marsý út á Dalvík á föstudag og svo er útilega með Keldhverfingum í Árskógi. verður örugglega gaman.
Í dag lét ég verða af því! Ég hringdi og pantaði tíma í augnaðgerð þann 22. ágúst er með hnút í maganum en mikið væri nú ljúft að losna við innréttinguna sem ég hef borið á nefinu frá ellefu ára aldri. Allavega þá læt ég slag standa með þetta.
Jæja ætla ekki að hafa þetta lengra í kvöld, segi góða nótt
2.8.2007 | 19:32
Verslunarmannahelgin framundan
Nú fer að koma að því. Verslunarmannahelgin gengur í garð á morgunn með öllum sínum kostum og göllum. Hverjir eru kostirnir, jú það eru margir vinir og ættingjar sem koma saman á þessum tíma fólk hittist og gerir sér glaðan dag. Hverjir eru þá gallarnir, að mínu mati er það fyrst og fremst drykkjulæti og fíflagangur í hálf fullorðnu fólki og fullorðnu fólki því. Út frá þessu eru svo þeir sem eru á aldrinum 18 - 23 ára óvelkomnir á Akureyri um helgina. Ég held að mér hefði nú þótt þetta skrítið þegar ég var þessum aldri því ekki var ég með drykkjulæti eða óspektir á þeim tíma. Með þessum aðgerðum er verið að flokka fólk í betri og verri gesti, hvað gerum við næst bönnum lituðum að koma og svo hommum og lesbíum og svo áfram og áfram vonandi ekki. Þetta er ekki aðferð að mínu skapi, sama hvað hver segir þá hefði átt að bæta gæslu og viðbúnað en ekki draga fólk í dilka. Skyldu þessi óæskilegi hópur tjalda í Glæsibæjarhreppi, Svalbarðsströnd eða fram á Hrafnagili? Kemur í ljós