Blogg síðan hvenær?

Jæja ég hef ekki staðið mig hér undanfarið. Enda er bloggið ekki framarlega í forgangsröðunini. Ferðin til Madrídar var mjög skemmtileg, mikið gengið og sumir drukku líka meira en venjulega. Þó voru ekki nein sérstök vandræði með einn einasta mann. Reyndar var einn rændur en það hefði getað komið fyrir hvern sem var. Við löbbuðum mikið eins og ég sagði en versluðum lítið sem ekki neitt, enda er ég að fara til Baltimor eftir mánuð. Þar er sennilega mun hagstæðara að versla en í Madríd. Borgin er svolítið sérstök því hún virðist vera mikið sundurslitin, þ.e. byggingarsvæðin klofna í hverfi með gróðri. Þegar við flugum yfir borgina virtust þetta vera margir litlir bæir sem tengdust saman. Það eru margar fallegar byggingar þarna má þar nefna bæði Konungshöllina og Dómkirkjuna. Utan við göngu þá fór ég í Spa á hótelinu sem var mjög sérstakt en Sigurgeir fór í nudd á meðan. Bæði á föstudags og laugardagskvöld enduðum við á karaókí bar þar sem sumir gátu látið ljós sitt skína. Ég þakka mínum sæla fyrir að vera laglaus og una því, ég heyrði of marga syngja sem ekki héldu lagi þarna, varð á köflum illt í eyrunum. En látum þetta duga af Madríd.

Vikan hefur svo auðvitað einkennst af vinnu og er ég að fara að vinna að loknu þessu pári sem sagt vinna bæði laugardag og sunnudag þessa vikuna. Er aðeins byrjuð að vinna nýju vinnuna líka og held ég að hún verði góð. Mikið verk fyrir höndum þar en skemmtilegt að takast á við nýja hluti.

Látum þetta duga að sinni.

 


Gengin af göflunum

Það má segja að ég sé gengin af göflunum, er á leið til Madrídar á fimmtudag í helgarferð, auðvitað í boði mannsins míns. Þar sem við ætlum ásamt öðrum vinnufélögum hans að eiga náðuga daga og skemmta okkur vel.

Það er ekki nóg með að ég ætli að flakka þangað heldur er ég á leið til Baltimor þann 12 desember. Þá ætlum ég, Guðrún systir og Þóra mágkona að láta til okkar taka í verslun og skemmtun ekta konu ferð fyrir okkur þrjár. Mér finnst þetta ótrúlega spennandi þar sem ég hef aldrei komið til Bandaríkjanna.

Þar sem ég ætla að hverfa af landi brott svona í jólamánuðinum finnst mér ég þurfa að fara að gera eitthvað hér heima fyrir jólin, svo viti menn mín varð brjáluð í gær og fór að gera eldhúsið hreint, það reyndar veitti ekki af því þar sem ekki hefur verið nema rétt strokið af undanfarin fjögur ár. Samt sem áður spurði Sigurgeir mig hvort nú ætti að hengja upp jólagardínurnar þegar hann kom heim úr vinnu kl. 16. Það skal tekið fram að jólagardínurnar eru enn á sínum stað og fara ekki upp fyrr en í desember. En eldhúsið mitt er orðið hreint með nýþvegnum gardínum þannig að þar er nú lljúft að setjast niður.

Það var ótrúlega góður þurrkur hér norðan heiða í gær þannig að margar vélar af þvotti voru líka þvegnar og þurrkaðar. Gott að nota tímann. Nú er aftur á móti ausandi rigning og logn. Heimir og Eva eru á Siglufirði og ég hef áhyggjur af að það geti farið að snjóa áður en þau koma heim í kvöld. En þetta eru skynsöm ungmenni sem fara varlega vona ég.

Ég reikna með að fara að kynna mér þau störf sem ég kem til með að sinna í nýja starfinu mínu hjá Framkvæmdadeild Akureyrarbæjar fljótlega eftir helgi. Samt ekki á morgunn því ég er hjátrúarfull og vil ekki byrja í nýju starfi á mánudegi. Það verður samt gaman að takast á við ný verkefni.

Sigurgeir og pabbi fóru á sjó áðan svo það er best að ég ráðist á næsta stað og þrífi þvottahúsið mitt næst þannig að ég setji upp hreinar gardínur þar líka. Þeir sem til þekkja vita nefnilega að þvottahús og eldhúsglugginn eru hlið við hlið í mínu húsi og þar vil ég hafa samstæðar gardínur en ekki sitt af hvoru tagi. Nú er sem sagt tölvutíminn úti í dag þannig að ég kveð að sinni. Spurning hvort ég blogga aftur áður en ég held á vit ævintýranna á Spáni.

 


Skemmtilegur laugardagur

Gærdagurinn var skemmtilegur það verður ekki annað sagt. Ég tók daginn ekkert allt of snemma fór á fætur um níu. Ákvað að eyða hluta dagsins með móður minni og fór með henni í Listfléttuna þar sem hún átti gjafabréf frá því að hún varð sjötug í desember síðastliðinn, Við skoðuðum heilmikið og loksins fann hún sér fallega mynd eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Skemmtilegt þótti mér að sjá hvað mikið er komið af listaverkum sem sýna menn í hinum ýmsu bakgrunnum t.d menn úti í náttúrunni, menn að leik, fjölskyldur og fleira í þeim dúr. Kannski þetta sé upphaf kærleiks bylgju í þjóðfélaginu.

Eftir Listfléttuna fórum við á Glerártorg og versluðum í matinn. Síðan í Sunnuhlíð þar sem ég skipti á grautar/súpuskálum frá Rosendal yfir í desertskálar frá þeim sömu. Reyndar finnst mér alveg ótrúlegt hvað þetta er vinsæll varningur frá þeim. Greinilega vinsæl gjafavara fyrir allan aldur. Ég eignaðist nokkra hluti í þessum stíl þegar ég útskrifaðist í vor og sé að stefnan er tekinn á að eignast aðeins meira. En hvað um það eftir Sunnuhlíð var haldið heim. Góður tími sem við eyddum þarna saman mæðgur, enda ekki algengt að við förum saman í svona leiðangra. Þar sem mér leiðist alveg afskaplega að fara í búðir.

Í gærkveldi var svo borðað með góðum félögum í Karlakórnum og auðvitað sungið og trallað fram yfir miðnætti, þá skruppum við á Vélsmiðjuna því miður þá bara þoli ég ekki þennan stað, ekki að ástæðulausu að menn eru farnir að kalla þetta endurvinnsluna það er alveg á hreinu. 

Ég er búin að fara út og klippa niður og hreinsa blómabeðin mín í morgunn og ætla nú að eyða smá tíma í að mála jólakrans úr keramiki. Hef ákveðið að vera dugleg að leika mér þar til ég byrja í nýja starfinu mínu því til að byrja með verð ég í báðum störfunum svo ég þarf örugglega alla mína orku í þau þegar ég byrja þar fyrir sem ég þarf auðvitað að læra heilmikið af nýjum hlutum.

Læt þetta gott heita og tek fram penslana.


Fyrir Marsý:)

Það er víst tími til kominn að blogga aðeins. Síðasta vika leið ansi hratt. Halldóra og Aðalheiður Karen fóru suður á mánudag og svo er maður búin að vera á kafi í vinnu. Þó var vinnu vikan brotin upp með liðsheildardegi á fimmtudag þar sem allir starfsmenn ráðhúss komu saman og hlýddu á fyrirlestra, fóru í smá sprell og leiki. Þetta var einstaklega vel heppnaður dagur, við fengum meðal annars fyrirlestur frá Vöndu Sigurgeirsdóttur um einelti sem var hreint út sagt frábær.

Á föstudag var svo farið í óvissu ferð eftir vinnu. Hún heppnaðist líka mjög vel enda góður hópur samankominn. Helgin leið svo tíðindalaus þar sem ég var að vinna á laugardag og var í húsverkunum á sunnudag.

Það sem af er þessari viku hefur verið unnið fram yfir kvöldmat, þannig að það gerist ekki mikið annað á meðan. Þó hef ég aðeins mundað penslana og auðvitað mætt í Gravity en það er bara einn tími eftir á því námskeiði. Þá tekur bara við að púla sjálfur en halda áfram að vakna fyrir kl. sex.

Það eru bara 15. dagar í Madrid og spenningur alveg farin að gera vart við sig. Kannski er spenningurinn líka vegna þess að ég er að flytja mig til í starfi,  dagssetning á það er þó ekki komin á hreint en það verður fljótlega. Til að byrja með verð ég líka á báðum stöðum. Gaman að takast á við ný verkefni sem líka eru krefjandi og því spennandi tímar framundan. Ég á eftir að segja betur frá þessum tilfæringum í góðu tómi.

 

Þar til næst hafið það gott.

 

Ný vinnuvika hafin

Helgin er að baki og aldurinn hefur hækkað um einn. Dóttirin og dótturdóttirin farnar heim. Ég var í fríi til hádegis í dag svo ég gæti leikið við nöfnu mína í morgunn, hún svaf eins og engill þegar ég kom heim úr Gravity tímanum í morgunn en ég freistaðist samt ekki til að skríða upp í og sofa með henni heldur fór að ganga frá dótinu hennar.

Sigurgeir sótti mömmu sína og pabba til Húsavíkur á laugardag og þau borðuðu með okkur kvöldmat síðan keyrði hann þau austur aftur. Það var gaman að þau gátu komið því Halldóra var það slöpp eftir kirtlatökuna að hún treysti sér ekki austur. Annars er hún dugleg að drífa sig austur þegar hún kemur norður.

Annars fórum við skötuhjúin í leikhús með dótturinni og bróðurdóttur Sigurgeirs í gærkveldi og skemmtum okkur vel við að horfa á Óvita. Heimir og Eva voru að passa Aðalheiði Karen á meðan en þau eru að fara í leikhúsið á næsta föstudag þannig að þetta hentaði ágætlega. Þó svo að ég hefði alveg viljað hafa alla fjölskylduna með mér í leikhús á afmælinu mínu. Það eru 18 ár síðan ég eyddi síðast afmæliskvöldi í leikhúsi og þá sáum við Oliver Twist í Reykjavík.  Jæja en þegar við komum heim var sú stutta rétt að sofna þannig að maður reyndi nú að hafa hljótt, hvað um það Eva og Heimir komu fram frá því að svæfa stuttu seinna en ég fór þá fljótlega inn til að sofa þar sem fótaferð var fyrir sex, sest þá ekki sú stutta upp og segir að Heimir og Eva hafi skilið sig eina eftir í nóttinni. Ha ha hún var nú samt ekki skilin neitt eftir jæja læt þetta duga í bili og segi góða nótt

 


Góður dagur

 

Skrítið hvað maður hefur lítið hjarta þegar eitthvað er í gangi. Halldóra Friðný fór í hálskirtlatöku í dag og ég var að deyja úr stressi fyrir hennar hönd. Fannst ég allt of langt í burtu, hugsaði með mér að ég ætti kannski að taka næsta flug suður og vera með Aðalheiði Karen og létta eitthvað undir. En ég gat hætt að hugsa svona þegar ég var búin að heyra í þeim, aðgerðin gekk vel og þá er bara að bíða til föstudags þegar þær koma norður.  Ég á einnig von á að fá systurdætur mínar tvær í gistingu á föstudaginn þannig að það verður gaman hjá okkur hér. Á sunnudaginn á svo að fara í leikhús og sjá Óvita það er við skötuhjúin og Halldóra Friðný, Heimir og Eva ætla að passa þar sem þau fara með foreldrum Evu á þessa sýningu 5. október. En þar sem ég á nú afmæli á sunnudaginn ætla ég að gera mér dagamun.

Ég er byrjuð að mála, fór um daginn og keypti mér nokkra keramik hluti til að mála og ég get sagt ykkur að nú líður mér yndislega, ég saknaði þess óendanlega að föndra ekki og gera eitthvert handverk meðan ég var í skólanum. Það er líka peysa á prjónunum og ýmislegt fleira í pípunum. Vogin er sem sagt nánast í jafnvægi þessa dagana. Jæja ég ætla að láta þessum pistli lokið hér í bili, það er fótaferð kl. tæplega sex í fyrramálið.


Haust

Já það er svo sannarlega komið haust. Laufin falla af trjánum og heldur er hráslagalegt úti. Þvottavélin mín er búin að fá ný kol og komin í vinnu hjá mér aftur. Helgin var róleg og góð, byrjaði á að heimsækja Siggu á föstudagskvöldið þar sem margt var skrafað og klukkan orðin allt of margt þegar haldið var heimWink en hvað um það spjallið var gott og rauðvínið líkaWizard Á laugardag tók ég mig til og þvoði heilmikið, bakaði slatta og þreif eins og gengur. Eldaði síðan góðan mat handa okkur skötuhjúunum og hafði það gott. Ætlaði að hreiðra um mig fyrir framan sjónvarpið og horfa á eins og eina mynd en því miður þar var ekkert sem ég hafði áhuga á, svo ég skreið í mína holu um 10 og svaf vært til morguns. Á sunnudeginum var blaut og kalt og því ekki útivistarveður, því var hnoðað í kleinur og þær steiktar. Þannig að nú á ég loks eitthvað með kaffinu sem vart hefur skeð undan farin 4 ár.

Í morgunn var svo lagt í einn gravity tímann enn, ég er enn með strengi frá því í fyrsta tíma, hvernig endar þettaBlush formið hefur allavega ekki verið gott.  Jæja nú er að panta flug fyrir skvísurnar mínar því þær ætla að koma norður um helgina en Dúi verður að þræla á meðan.


Þvottavélin sagði mér upp:(

Á laugardag var þvottadagurinn mikli eða þannig, þvottavélin hafði þetta allavega ekki af þannig að í dag hef ég leitað að nýrri til að taka við af þessari elsku sem hefur þjónað fjölskyldunni í 15 ár. Það væri nú sennilega betra að það væri bara til ein tegund en ekki fjöldinn allur. Hvað um það ég hlýt að taka ákvörðun á morgunn svo ég geti þvegið meira.

Á sunnudaginn skruppum við austur í sveit í réttir, við tókum tengdó með og einnig Adam bróður tengdapabba.  Þetta var fínn dagur þrátt fyrir að snjór væri hálfa leiðina austur og kalt í veðri. Snjórinn var farinn þegar við fórum heim þannig að allt var í fínu lagi.  Um kvöldið var svo sameiginlegt afmælis kaffi hjá Önnu og Ingu. Fínasta skemmtun það.

Í morgunn byrjuðum við skötuhjúin svo á Gravity námskeiði niðri á Bjargi. Já nú skal tekið á letinni og vaknað fyrir kl sex þrjá daga í viku. Þetta verður örugglega strembið en ég skal nú samt hafa þetta afWhistling

Litla skottan mín er lasin og búin að vera það síðan á fimmtudag hún fær þvílíkar magakvalir greyið litla og endaði hjá lækni áðan sem segir þetta vera smitandi vírus sem gengur yfir á viku. Vonandi fer þetta að lagast. Þá er ekki fleira í bili

Góða nótt


Smá pistill

Á sunnudaginn fórum við til Húsavíkur og dvöldum í góðu yfirlæti hjá tengdó. Sigurgeir náði að fara á einn fótboltaleik með pabba sínum, sem er drjúgur við að fylgjast með fótboltanum því hann sér helst alla leiki bæði í kvenna og karlaknattspyrnuna. Enda búið að heiðra hann fyrir. Ýmislegt höfðum ég og tengdamamma að spjalla um á meðan auk þess sem við skoðuðum handavinnu blöð og létum okkur dreyma um að sauma hitt og þetta stykkið. Eða ég lét mig dreyma hún á sjálfsagt eftir að sauma þau nokkur í vetur. Eftir kvöldmat brunuðum við svo heim aftur.

Í gærmorgunn fór ég svo til augnlæknis hér á Akureyri í fyrsta skipti í sjálfsagt 8-10 ár. Því miður hefur ekki orðið nein bót á þeim búnaði sem er hér á augnlæknastofu bæjarins. Kannski er það allt í lagi og kannski virka tækin eins, ég er samt sannfærð um að ég færi ekki til tannlæknis sem væri með þrjátíu- til fjörutíu ára gömul tæki á sinni stofu og geri það ekki heldur aftur með augnlækni. Jæja en ferð mín til augnlæknisins var tveggja vikna eftirlit eftir aðgerðina og kom það vel út, þannig að næsta skoðun er þegar þrír mánuðir eru liðnir frá aðgerð og það gerir Jóhannes Kári sjálfur.

Eftir vinnu og kvöldmat í gær fórum við skötuhjúin og gengum í Krossanesborgum heillengi þessi staður er þvílíkt fallegur að ég vil ekki síður fara þarna að ganga en að tölta milli trjánna í Kjarnaskógi auk þess sem ég labba beint að heiman þangað en þarf ekki að keyra í hinn enda bæjarins Smile eins og ég þarf til að fara í Kjarnaskóg. Við hittum á göngu okkar föður æskuvinkvenna minna úr Lyngholtinu sem var að viðra hund dóttur sinnar það var gaman að því.

Læt þetta gott heita í bili.


Nóg að gera

Þegar komið er að lokum vinnuviku þá fer maður að hugsa hvað á að gera um helgina eða er það ekki? Þessari helgi verður eytt meira og minna í vinnunni. Það veit ég og vissi svo sem fyrir en það eru nú ekki allir ánægðir með það í minni fjölskyldu.

Annars hefur maður verið hálf niðurdregin frá því í gær þegar Guðrún sys hringdi í mig og sagði mér frá andláti Helgu Karólínu 38 ára konu frá Kópaskeri sem við Sigurgeir kynntumst í vor. Mjög geðug kona sem bar veikindi sýn ekki á torg þó hún væri búin að fá heilblóðfall og væri öryrki, einstæð móðir þriggja barna. En svona er víst lífið. Við eigum öll okkar tíma en vitum ekki hversu langur hann er.

Í gærkveldi hittumst við sex skólasystur á Greifanum til að kveðja Systu en hún er að flytja suður um helgina. Ég á eftir að sakna hennar það eitt er víst, því betri félaga er erfitt að finna. Alltaf jákvæð, hress og bjartsýn en við eigum nú eftir að hittast fljótlega aftur.

Aðalheiður Karen fór í nefkyrtlatöku í gær og einnig voru rörin fjarlægð úr eyrunum hennar. Halldóra sagði að hún hefði verið eins og ljós hjá lækninum og eftirköst engin sem betur fer. Vonandi heyrir hún nú rétt hljóð því rörin voru víst orðin eitthvað skítug:)

Heimir og Eva fóru í útilegu í dag með skólanum. Þetta er partur af einhverjum útivistaráfanga sem þau sækja bæði. Vonandi verður ekki mjög kalt hjá þeim í tjaldinu í nótt og rignir ekki mikið á þau á göngunniWink Mamma gamla hugsar allavega til þeirra.

Læt þetta duga í bili


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband