Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Komin heim

Þá er maður komin heim á ný. Lentum hér á Akureyri kl. 23:30 í gærkveldi.  Ferðasagan bíður í nokkra dag eða kemur smátt og smátt, því þetta var þvílík upplifun og margt sem við sáum að ég er sko ekki búin að melta allt. En á morgunn tekur alvaran við á ný því þá hefst vinnan aftur. Annars er ég ekki búin að plana meira frí í sumar en það kemur. Í kvöld erum við að fá gesti í mat ekki neinn veislumat samt því nú verður steikt ýsa. Af hverju skildi maður segja að það væri ekki veislu matur mér finnst þetta miklu betra en margt kjöt. Jæja ætlaði bara að láta aðeins vita af mér það kemur meira fljótlega.

Kveðja

Heiða


Hvar er ferðahugurinn?

Ekki veit ég hvað er að mér, bíð eftir að spenningur fyrir Thallin og Finnlandi geri vart við sig en hann er einhvern veginn ekki að gera sig. Það eru bara 22 tímar í brottför en svo sem margt að sýsla fram að þeim tíma. Helgin var góð við fórum á vorfagnað hjá kórnum og skemmtum okkur mjög vel. Fórum svo á Húsavík á sunnudaginn og fengum þar kvöldmat hangikjöt og uppstúf að hætti tengdamömmu. Klikkar aldrei.

Það er stundum skrítið hvernig atvik raðast í síðustu viku þá hringdi tengdamamma í mig í vinnuna og sagði mér að mágur minn hefði lent í vinnuslysi og fótbrotnað. Klukkutíma seinna hringdi Guðrún systir í mig og sagði mér að Þóra mágkona hefði veikst og lent á sjúkrahúsi, þetta þykir mér nú meira en nóg í bili en það er ekki stopp því um kvöldmat í dag hringdi svilkona mín og var að láta okkur vita að hennar maður (sem er mágur minn, bróðir mannsins míns) hefði fengið blóðtappa og liggur hann á sjúkrahúsi. Það er því kannski ekki skrítið að það sé ekki komin ferðahugur í mig. Báðir bræður Sigurgeirs lasnir (reyndar annar slasaður). En vonandi eru þessar hremmingar frá. Svo finnst mér alltaf vont að vera í burtu ef það eru ekki allir í lagi.

Hvað um það á morgunn verður litla (stóra) barnið mitt 18 ára, ég ætla að vera með grill fyrir okkur og mömmu og pabba áður en við höldum af stað af þessu tilefni. Það hittir alltaf þannig á þegar við erum að fara erlendis að það er farið í kringum tuttugusta. En þegar ég var komin að því að fæða hann var ég ákveðin í að hann myndi ekki fæðast þann nítjánda var viss um að þetta væri drengur og fannst ekki við hæfi að hann ætti afmæli á kvennréttindadaginn:)

Jæja haldið ekki að ég sé búin að vera með bilaða þvottavél hér í eina og hálfa viku jafn þægilegt og það er en sem betur fer kom hún úr viðgerð í dag svo drengurinn getur þvegið af sér meðan við erum í burtu. Vona bara að hann hafi líka vit á að borða eitthvað almennilegt. Kannski sér amma hans um að gefa honum eitthvað í gogginn annað slagið.

Hef þetta ekki lengra að sinni þar til næst hafið það gott


Bloggið

Mikið er leiðinlegt þegar maður er búin að skrifa heillanga blogg færslu en getur svo ekki vistað hana. Þetta kom fyrir mig hér í gærkveldi þannig að ég varð verulega fúl. En þeir sem þekkja mig vita að það nær aldrei lengra en fremst í nasirnar svo nú geri ég aðra tilraun.

Það er sem sagt búið að vera brjálað að gera síðustu viku í vinnuni unnið frá því um kl. sex á morgnana og fram á kvöld kom meira að segja ekki heim fyrr en um ellefu á miðvikudagskvöldið. Svona er þetta oftast í kringum útborganir enda alltaf mikið unnið þá. Því var það stundum á meðan ég var í skólanum og í prófatíð þá fór maður í vinnu kl sex og próf kl níu og svo beint í vinnu aftur. En nú er það brjálæði að baki.

Ég setti fullt af myndum inn á síðuna aðallega til að Halldóra gæti náð þeim myndum sem hún vildi frá síðustu helgi og mun ég því taka flestar út aftur fljótleg. Á eftir eru tónleikar hjá Karlakórnum og þar á eftir er grill og skemmtun fyrir kórmenn í Lóni. Við ætlum auðvitað að mæta þar og skemmta okkur enda fínt að hrista hópinn saman fyrir utanlandsferðina sem er alveg að bresta á. Á bara eftir að vinna í tvo daga fyrir sumarfrí.Wizard.

Í dag er Háskóli Íslands að brautskrá sína kandídata í vor og þar á meðal er Kristbjörg frænka mín einnig er verið að útskrifa frá Kennaraháskóla Íslands þar held ég að bæði Elín Björg frænka og Ásta hans Gísla séu að útskrifast ég sendi hamingjuóskir á línuna og vona að dagurinn verði þeim góður.

Það eru tjaldbúar í garðinum hjá mér Þóra Björg og tvær vinkonur hennar. Ungar og ferskar stelpur að skemmta sér:)

Nú er ég farin út í sólina svo ég kveð í bili


Helgin

Hreint út sagt frábær helgi er að baki. Það má segja að það hafi verið víða leitað fanga þessa helgina. Ég byrjaði á að vera í fríi á föstudag enda veitti svo sem ekki af því þar sem að ég þurfti bæði að undirbúa útskriftarveisluna mína og svo að hjálpa mömmu í sambandi við grillið á föstudagskvöldinu. Grillkvöldið var bara alveg frábært. Allir vel sáttir og skemmtu sér vel. Við fórum heim um miðnætti því það þýddi ekki að vera ósofin á laugardag.

Laugardagurinn rann svo auðvitað upp, fyrst þegar ég fór á fætur var klukkan 6 en þá var þvílíkt fallegt veður sofnaði nú samt aftur en fór svo á fætur um 8:30 en þá var komin dimm þoka. Þokunni létti nú samt, þannig að það kom þvílíkt fallegt veður aftur. Við vorum mætt upp í höll um 10 og hófst athöfnin kl. 10:30. Hún gekk bara vel fyrir sig þó svo að væri mjög heitt í salnum og svona. Ekki varð maður allavega var við að nokkur liði útaf eða neitt þannig. Eftir útskriftina í höllinni var farið í Stefánslund þar sem var myndataka. Ég var svo komin heim fyrir kl. 14, enda eins gott því ég átti eftir að græja ýmislegt fyrir kl. 15 þegar gestirnir mínir fóru að koma. Ég fékk fullt af góðum gestum svo ég tali nú ekki um gjafirnar, leggst yfir spakmæli og gullkorn á næstunni:) Saknaði samt Ásgeirs bróður og Þóru því þau komust ekki og eins Binna og Ágústu en það er nú alltaf þannig að ekki er hægt að vera allstaðar.  Um kvöldið fórum við svo í Sjallann. Þar var flottur matur og ágæt skemmtiatriði töfruð fram af Jónu Jóns og Evu Hrund, þær eiga heiður skilið fyrir elju og dugnað við að koma þessu kvöldi á. Sigurgeir fékk vinning á lukkunr. nýjan gsm síma og úttekt í sporthéranum sem er Regatabúðin. Eftir borðhald og skemmtiatriði spilaði svo hljómsveitin Bermúda en þar sem fólki fækkaði fljótt fórum við á röltið og enduðum á Vélsmiðjunni þar sem systkini mín voru að skemmta sér. Guðný Rut, Óli, Hugrún, Árni, Marsibil og Systa takk kærlega fyrir skemmtilegt kvöld. En auðvitað söknuðum við Siggu sem hringdi þó úr blíðunni í Danmörk.

Ég tók daginn til þess að gera snemma á sunnudag var komin á fætur um 9:30 fór að ganga frá og svona. Litla skottan mín fékk líka smá athygli frá mér þarna því ég lék lítið við hana á laugardaginn. Sigurgeir var búinn að spá því að þetta yrðu þriggja daga veisluhöld og það má segja að það hafi verið nær sanni því í gær komu nokkuð margir í kaffi aftur. En það var bara gaman. Halldóra, Dúi og Aðalheiður Karen fóru ekki af stað suður fyrr en um 19:30 og Eva keyrði á Sigló um 20:30. Strax farin að sakna þeirra allra. Ég á nú kannski eftir að smella inn einhverjum myndum en í bili segi ég over and out


Mikið að gera

Hef ekki gefið mér tíma til að skrifa hér inn í marga daga en það er auðvitað einfaldlega vegna þess að það hefur verið allt rauðglóandi. Ef ég hef byrjað á færslu þá hringir síminn eða einhver kemur í heimsókn. Ég er auðvitað að undirbúa útskrift á laugardag og svo ættlum við þrjú af systkynunum að borða saman á föstudagskvöldið ásamt mömmu  og pabba, okkar börnum og fylgifiskum. Einnig verða Alla Gunna, Ágúst og Silla með okkur. En Ásgeir og Þóra komast því miður ekki. Ástæða þess að við ættlum að koma saman þá er að þann 26. júní eiga gömlu hjónin gullbrúðkaup en þá verðum við eitthvað út um víðan völl systkynin, allavega verðum bæði ég og Ásgeir erlendis. 

Hér er bongóblíða að hætti norðurlands og allt útlit fyrir að svo verði áfram. Halldóra Friðný og Aðalheiður Karen komu norður í gærkveldi og nú segist sú stutta vera komin heim á Atureyri. Ég er nú loks búin að finna mér föt til að vera í við útskriftina en ég sá loksins skó í gær. Við fórum líka og versluðum okkur ný húsgögn á pallinn svo það verður hægt að vísa gestunum út á pall ef þröngt verður inni. Í dag eftir vinnu á svo að fara og versla einhver sumarblóm. Það er nú komin tími til að sinna vorverkunum af einhverju viti þannig að það verði ekki allt í órækt í garðinum eitt sumarið enn.


Sjómannadagurinn

Hvað er að hér á Akureyri? Þá á ég nú við í sjómannadagsráði sem hefur séð um að halda sjómannadaginn hátíðlegan í gegnum árin, í dag þá er bara fýla í mönnum og ekkert um að vera. Ég vildi ekki vera sjómannsbarn í dag sem bíður eftir því að sjómannadagurinn komi og fullt skemmtilegt að gera. Ég man þegar maður beið eftir því að þessi dagur kæmi fór í spariföt og á hátíðarhöldin með mömmu og stundum pabba ef hann var í landi. Þetta var dagur sem var haldin til heiðurs sjómönnum og sýna þeim virðingu. Kannski er búið að heiðra alla þá sem eiga það skilið ég veit það ekki. En finnst þetta ömurlegt.

Skrítin tilfinning læðist að mér núna þegar ég er að ganga frá glósunum mínum úr HA, hvernig skyldi maður höndla það að vera bara að vinna næsta vetur það verður skrítið. Fullt af tíma sem ég kem til með að geta notað i fjölskyldu og vini, yndisleg tilhugsun samt.

Hlakka til að fá skottuna mína norður í vikunni orðið langt síðan ég hef séð hana. Jæja einhver myndi segja mér að hætta þessu pári og halda áfram að taka til þannig að ég geri það . Over and out

 


Síðasta prófið að baki

Jæja þá er síðasta prófið að baki og allt í höfn. Þannig að nú er að snúa sér að öðru. Í kvöld ætla ég nú samt að taka því rólega en á morgunn ættla ég að láta hendur standa fram úr ermum taka til, vinna og eitthvað skemmtilegt. Nú verður líka glósum úr skólanum pakkað niður og þær geymdar ef ske kynni að maður kíki í þær síðar. Eftir þessa önn er ég búin að sjá að mér hefði kannski gengið betur í prófunum hinar annirnar ef ég hefði ekki verið í yfir 100% vinnu með. Ég fékk 8 í eink. bæði í stjórnun og EES og 8,5 fyrir lokaritgerðina mína þannig að meðaleink. er rúmlega átta. En sem sagt þetta er í höfn allt samanWizard 

Heimir fór á Siglufjörð eftir vinnu og ættlar að vera hjá Evu sinni um helgina þannig að nú erum við bara tvö í kotinu alltaf tómlegt þegar svo er. En börnin manns eldast víst og fljúga úr hreiðrinum maður getur bara þakkað fyrir að þau eru ekki í neinu rugli og veseni.

Þá er best að sjóða sér grænmeti í kvöldamatinn og njóta þess að borða ein því Sigurgeir fór á einhverja kynningu hjá Hilt.

Kannski ég fái mér bara rauðvín með grænmetinu Whistling

 


Prófkvíði

Hver veit hvað það er? Ég veit hvernig hann er en veit ekki af hverju hann kemur eða hvers vegna mér gengur svona illa að meðhöndla hann. Kannski þetta sé hræðsla við að gera vitleysu eða standa sig ekki. Ég er allavega farin að fá verulega oft hnút í magann núna og reikna í svefni allar nætur, verst að ég á von á einhverju óvæntu í prófinu á föstudag. Það þýðir samt ekki að láta hugfallast útskriftin mín byggir á þessu bévítans prófi sem gildir 30% af eink. áfangans.

Í dag fór ég rúnt í kvennfataverslanir Akureyrarbæjar og fyrirgefið mér fannst eitthvað lítið til af sparifatnaði fyrir konur á mínum aldri. Ætla með mömmu á morgun og reyna að finna á hana föt gaman að vita hvort það gengur betur. Er reyndar að vinna til 4 en við förum eftir það. Kannski ég panti mér bara ferð til Reykjavíkur í fataleit.

Mikið hlakka ég samt til í næstu viku þá kemur Halldóra mín norður með Aðalheiði Karen á fimmtudegi og Dúi Grímur kemur fljúgandi á eftir þeim á föstudagskvöldinu svo koma Guðrún Jóna og Óli Björn ásamt börnum, Eyjólfur kemur og kannski fleiri. jæja nú er að fara að leggja sig og dreyma Har.  Eins gott að Bjarni geri sér grein fyrir því að ég er með hann á heilanum og hann heltekur undirmeðvitundina um þessar mundir Police held að þetta sé ómeðvitað áreiti. Punktur og pasta

 

 


Sól og stilla

Einhverstaðar sagði ég að veðurspáin væri þannig um helgina að maður ætti ekki á hættu að leggjast í garðvinnu. Það bregður nú hinsvegar þannig til í dag að það er hið fegursta veður sól og hiti 7-8 stig, ég á því verulega bágt með að sitja kyrr og reikna er alltaf að skreppa út á snúru eða bara aðeins að ath. hvernig blómabeðin líta út núna hvort farið sé að sjá í nabba á rósunum mínum og svona. Ef ég held áfram að reyna að pína mig hér er ég hrædd um að ég komist ekkert áfram með þessi dæmi, svo ég er að hugsa um að láta eftir mér að hjóla einn hring eða svo um hverfið og vita hvort ég læknast ekki af þessari útþrá.

Í dag er verið að ferma hjá vinafólki okkar og erum við boðin í fermingarveislu hjá þeim á morgunn. Í fyrra var líka fermt hjá þeim og þá var veislan líka daginn eftir. Þetta er að mörgu leiti bráðsniðugt. Ekki málið að fá sal og svona og líka bara minna stress á fermingardaginn sjálfann.

Spurning hvort ég skrepp suður einn dag í næstu eða þarnæstu viku og bruðla aðeins á eftir að fá mér einhver föt og svona. Ætla nú samt að skoða hér fyrst en oftar en ekki finnst mér ég ekki fá föt hér í bæ. Þetta er svolítið skrítið því nóg er af búðum. Hef varla tíma til að sauma mér dress fyrir útskrift því eins og venjulega þá eru fyrstu tvær vikur mánaðar mjög annasamar í vinnuni. Það er nú samt aldrei að vita hvað mér dettur í hug.

Mig er farið að kítla verulega í fingurnar af löngun til að gera handavinnu og föndur. Búin að taka fram mynd sem ég var byrjuð að sauma áður en ég fór í skólann. Hún bíður samt fram yfir 1. júní eins garnið og prjónarnir sem fóru með í síðustu suðurferð. Ég var farin að sofna í bílnum um leið og við komum út fyrir bæjarmörkin  þannig að ég tók upp á því að prjóna á leiðinni frekar en sofa. Þ.e. þegar ég keyri ekki sjálf. Í svona ferðum hef ég prjónað peysur á Aðalheiði Karen og fl. 

Jæja nú eru augnlokin farin að síga svo ég ætla að sækja súrefni í lungun og hjóla einn hring. 


Þvottavélin

Nú malar þvottavélin hægt og hljótt. Enginn leki og engin óhljóð þvílíkur munur. Takk elsku pabbi. Það var nú svo sem ekki að spyrja að því Maggi Lór mætti hér strax eftir fréttir og skipti um dæluna fyrir dóttur sína þ.e hann setti þá nýju í Sigurgeir var búinn að rífa hina úr. Gamli beið svo þar til ég var búin að setja í vélina og hún búin að þvo í nokkra stund áður en hann fór aftur heim vildi greinilega að þetta virkaði. Eins gott að ég hélt lífi í blómunum hans á meðan hann var í Grindavík um daginn. Jæja best að gera eitthvað af viti núna. Þar til næst bara verum góð við hvert annað og brosumWizard

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband