Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
7.1.2009 | 18:27
Jóla lok
Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.
Jólin og áramótin voru góð á þessum bæ. Um jólin höfðum við tengdó hjá okkur og svo brunuðum við suður þann 28. des. Lögðum af stað kl. 7 og vorum komin í höfuðborgina um hádegið. Við fórum beint í Laugarneskirkju þar sem var fjölskyldu samkoma hjá hluta af móður ætt minnar. Það var bara tær snilld að hitta mikið af fólkinu sínu á þessum degi t. d. hitti ég báða bræður mína og systkini mömmu og svo auðvitað börnin hennar Gunnu frænku og barnabörn. Þetta er annað árið sem þessir tveir leggir koma saman milli jóla og vona ég að áframhald verði á þessum hittingi.
Ásgeir bróðir hefði ég ekki hitt nema þarna því hann, Þóra og Erla fóru til Austurríkis á skíði á milli jóla og nýjárs. En það var gott að sjá þessar elskur aðeins.
Við gerðum svo sem víðreist í þessari ferð. Heimsóttum fyrst Binna og Ágústu (bróður Sigurgeirs og mágkonu) fórum þaðan til Jóhanns og Þorbjargar sem við höfum ekki gefið okkur tíma til að kíkja til lengi. Kvöldið eftir vorum við boðin í mat hjá Öllu Gunnu og Ágústi þar sem við borðuðum og spjölluðum fram á kvöld. Þau vildu nú fá okkur aftur á nýjárskvöld en við ákváðum að fara heim á nýjársdag og því varð ekki breytt.
Einn dag skruppum við út á Álftanes til Grindavíkur og Sandgerðis. Við byrjuðum sem sagt á Álftanesi þar sem Sveinn bróðursonur Sigurgeirs var hjá tengdamóður sinni en hann eignaðist son þann 26. des og við kíktum á þá fjölskyldu. Þarna var auðvitað lítill gullfallegur drengur sem nefndur hefur verið Einar Ágúst. Svo fórum við til Guðrúnar systur í Grindavík og hittum þar börnin hennar fjögur, Óla mág og svo mömmu og pabba en þau eyddu áramótunum hjá þeim. Eyjólfur bróðir var í Reykjavík þennan dag svo hann hittum við ekki. Síðan var haldið til Jóns og Þorbjargar (bróður Sigurgeirs og mágkonu) í Sandgerði þar sem við vorum borðuðum kvöldmat ásamt þeirra börnum og dótturdóttur. Sú litla er fædd 14. des. 2008. Halldóra og fjölskylda fóru með okkur. Við vorum því búin að ná að taka myndir af öllum þrem langömmu og langafabörnum tengdó sem fæddust á 11 vikum nú í vetur í þessari ferð. Gaman að þessu öllu saman. Aðalheiður Karen fór svo með ömmu og afa að sofa. Hún var nú eiginlega bráðfyndinn því það kom skeifa á hana þegar við vorum lagstar uppí en hún vildi nú ekki segja mér af hverju. Ég þóttist auðvitað vita að hún væri með heimþrá og daginn eftir sagði hún við mömmu sína að hún hefði saknað hennar pínulítið. Það er mikið lagt á litla sál að verða stórasystir og sofa svo allt í einu hjá ömmu og afa út í bæ í stað þess að vera heima. Hún hefur nú samt komið nokkrar ferðir ein norður til okkar og aldrei verið neitt mál. Kannski var það nálægðin við heimilið sem gerði þetta.
Áramótunum eyddum við annars með dóttur, tengdasyni og tveim yndislegum dætrum þeirra. Við elduðum góðan mat og höfðum það gott. Skötuhjúin áttu 5 ára brúðkaupsafmæli sem var ekki haldið uppá og svo átti Dúi líka afmæli eins og venjulega á gamlársdag. Þannig að nú eru þau hjónakornin jafn gömul í þrjá og hálfan mánuð. Nafna mín fór á kostum þegar farið var að skjóta upp og vildi bara sprengja meira og meira. Sú litla kúrði nú bara vel dúðuð í ömmu fangi á meðan.
Á nýjársdag komum við við hjá Binna og Ágústu og borðuðum áður en við keyrðum norður. Þetta var fín ferð og gott að vera með dóturinni og fjölskyldu nokkra daga. Auðvitað söknuðum við samt Heimis og Evu sem voru á Siglufirði þessi áramót en stundum þarf maður að sleppa hendinni af ungdómnum ekki satt?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.12.2008 | 13:06
Jólin nálgast
Þá styttist í jólin. Vonandi allir sáttir og óstressaðir. Það er svo merkilegt að jólin koma alveg sama hvort maður er búinn að þvo alla veggi og gardínur eða ekki. Sem betur fer held ég að flestir séu nú hættir þessu mikla stressi fyrir jólin. Eina sem ég þarf nauðsynlega að klára fyrir jól er að skrifa á jólakortin og ganga frá jólagjöfunum. Ef það er í höfn er allt annað bónus. Jú eitt er líka nauðsynlegt það er hreint og hvítt á rúmunum. En það er það nú líka aðra daga
Við skötuhjúin brugðum okkur í jólagarðinn í gærkveldi það er fastur liður hjá okkur fyrir jól og kemur mér endanlega í jólaskap. Læt fylgja hér myndir sem við tókum þar og svo var líka svo jólalegt þegar við fórum á fætur í morgunn að það kemur líka hér.
Annars segi ég bara gleðileg jól.
30.11.2008 | 12:08
Aðventan
Nú er loksins komið að því. Get með góðri samvisku sett hluta jólaljósanna í gluggana. Í morgunn er ég búin að hengja upp jólagardínur í eldhúsið og þvottahúsið og setja jólastjörnu í þvottahúsgluggann. Eftir er að setja aðventuljósið í eldhúsgluggann, það kemur eftir smá stund. Laufabrauð var gert í gær með mömmu og pabba en það er líka eitt merki þess að aðventan sé að ganga í garð. Síðan var borðað hangikjöt og tilheyrandi Síðar í dag ætla ég að föndra aðeins, Eva María ætlar að koma og föndra með mér. Karlakórinn er að syngja á tónleikum með kvennakórnum og sálubót til styrktar mæðrastyrktsnefnd í dag svo Sigurgeir verður þar.
Annars er það svona helst að frétta að tengdamamma er komin hálfa leið heim það er hún er ekki lengur hér á sjúkrahúsinu heldur er hún komin á sjúkrahúsið á Húsavík. Það kalla ég nú gott miðað við það sem gengið hefur á síðasta mánuð. En hún er sterk þessi elska og það hjálpar henni eflaust mikið. Sigurgeir hefur ekki fengið aðra vinnu en það er svo sem ekki mikið um að vera þessa dagana en vonandi rætist eitthvað úr eftir áramót og þá fyrir 1. febrúar en þá er uppsagnarfresturinn hans búinn. Heimir hefur ekki fengið neina vinnu enn hvorki með skólanum né í jólafríinu.
Litlu skotturnar mínar í borginni eru orðnar góðar af hlaupabólunni svo það hljóta að fara að koma fleiri myndir af þessum elskum.
Ég ætla að skreppa suður á þriðjudagskvöld og heim aftur á fimmtudagsmorguninn. Halldóra þarf í smá aðgerð og ég ætla að passa litlu dömuna á meðan (það verður nú ekki leiðinlegt). Hlakka mikið til að sjá þær.´
Jæja nú er best að drífa sig í að gera eitthvað af viti. En svona í lokinn ætla ég að setja hér vísu sem ég tók af heimasíðu Skúla föðurbróður míns, en ég finn oft hugljúf ljóð þar.
Aðventa.Brátt nálgast sú helgasta hátíð í bæ
með heilögu ljósunum björtum
andi guðs leggst yfir lönd, yfir sæ
og leitar að friði í hjörtum.
!
En nú virðist fegurðin flúin á braut
friðurinn spennu er hlaðinn,
lífsgæðakapphlaup og kauphallarskraut
er komið til okkar í staðinn.
!
Þá vill hann oft gleymast sem farveg oss fann
fæddur á jötunnar beði,
við týnum úr hjartanu trúnni á hann
og tilefni jólanna gleði.
!
Vökvaðu kærleikans viðkvæmu rós
þá veitist þér andlegur styrkur,
kveiktu svo örlítið aðventuljós
þá eyðist þitt skammdegismyrkur.
!
það ljós hefur tindrað aldir og ár
yljað um dali og voga,
þó kertið sé lítið og kveikurinn smár
mun kærleikur fylgja þeim loga.
!
Láttu svo kertið þitt lýsa um geim
loga í sérhverjum glugga´
þá getur þú búið til bjartari heim
og bægt frá þér vonleysisskugga.
Hákon Aðalsteinsson
17.11.2008 | 17:01
Nóvember2008
Það er orðið þó nokkuð síðan ég hef skrifað hér inn. Enda svo sem ekki búin að vera skemmtilegasti mánuður ársins. Það hefur þó verið í nógu að snúast. Mánuðurinn byrjaði á því að Sigurgeir var sagt upp vinnunni með 3. mánaða fyrirvara eins og lög gera ráð fyrir þegar menn hafa unnið í 14 ár hjá sama fyrirtækinu. Við fórum á Heklu mót á Húsavík sem er karlakóramót. Það tókst ljómandi vel og skemmti ég mér þræl vel þar. Mín vinna gengur sinn vana gang nema hvað samstarfs kona mín er veik og auðvitað sakna ég þess að hafa hana ekki í vinnunni. En hún kemur bráðum aftur
Halldóra kom norður með skvísurnar þann 4. nóvember þó svo að þá væri búið að slá af 60 ára brúðkaupsafmælis veisluna. Aðalheiður Karen var þá að enda við hlaupabólu
Greyið var öll útsteypt í bólum og með mikið af þeim í andliti og hársverði. Við vonuðum svo sannarlega að litla prinsessan fengi þetta ekki en því miður varð hún lasin líka þegar þær komu suður á þriðjudeginum.
En nú eru þær báðar orðnar frískar þó bólurnar séu ekki grónar og verða því vonandi sprækar fljótt.
Jæja þjóðmálin breytast svo hratt þessa dagana að það er ekki henda reiður á eitt né neitt í þeim efnum. Enda finnst mér þetta allt orðið eins og einhver leikhús farsi.
Tengdamamma er búin að vera mjög veik en er nú aðeins að koma til. Ég er nú einmitt að fara til hennar upp á spítala rétt bráðum.
Jæja ég læt þetta duga að sinni
28.10.2008 | 20:14
Hvar endum við
Mér er nú farið að verða mál á að vita hvar við endum. Maður er að verða hálf kvíðin fyrir að hlusta á fréttir þar sem ekki virðist vera nokkuð jákvætt eða rétt gert hjá þeim sem ráða ríkjum hér. Alla vega eru alltaf nógu margir sem segja að þær aðgerðir sem framkvæmdar eru séu ekki til neins. Hvað bíður handan við hornið, uppsagnarbréf úr vinnu, skortur á nauðsynjum eða hvað.
Kanski eru þetta bara misvitrir spekingar sem tjá sig allan daginn út og inn um fjármálin allavega er áreitið orðið of þrúgandi fyrir mína parta. Ég held að fólk þurfi nú eitthvað til að létta lundina. Kanski við ættum bara að flýta því að setja upp jólaskraut og svona til að lífga upp á tilveruna.
Jóhanna Kristín dafnar vel og Aðalheiður Karen er jafn æðisleg og verið hefur. Hún hringdi í mig á sunnudag og bað mig að koma á tölvuna í myndavélina. Þá var hún að uppgötva að hún getur talað við okkur og séð í webcam um leið það er ekki ónýtt að hafa þau í beinni
Tengdamamma er á sjúkrahúsi fékk hjartaáfall í dag og var flutt hingað inneftir en síðasta sunnudag var hún lögð inn á sjúkrahúsið á Húsavík vegna einhvers í ristli. Vona að það gangi allt vel með hana.
Í næstu viku kemur Halldóra norður með skvísurnar báðar en það hefur staðið til að halda upp á 60 ára brúðkaupsafmæli tengdó um aðra helgi. Það verður þó allt að koma í ljós. Maður getur ekki vitað hvernig statusinn verður þá. En allavega koma þær mæðgur því það er búið að kaupa flug.
Bræður mínir eru báðir bæklaðir þessa dagana. Sá eldri fór í hné aðgerð á föstudag og sá yngri í aðgerð á olnboga í morgunn. Auðvitað hugsar maður til þeirra þessa dagana.
Jæja ég er búin að rausa nóg hér í dag
Vona að þið eigið gott kvöld og sofið rótt
22.10.2008 | 12:56
Komin heim
Eftir rúmlega viku dvöl í Safamýrinni er alvara lífsins tekin við. Komin til vinnu og allt það. Hugurinn leitar þó mikið suður yfir heiðar.
Litla daman dafnar vel og kallar mamma hennar hana stundum hámu þegar hún drekkur þannig að það vellur út úr henni. Á laugardaginn var sú stutta skírð og heitir hún Jóhanna Kristín, það er í höfuðið á tendamömmu minni og tengdaföður Huldu Karenar (hinnar ömmunar). Séra Jón Helgi skírði heima og var athöfnin hin fallegasta. ég má til með að setja hér inn myndir af henni seinna. Aðalheiður Karen var nú ekki alveg sátt í byrjun þar sem hún var búin að ákveða að litla systir ætti að heita Karen Sigga, en hún var orðin sátt fyrir kvöldmat.
Læt þetta duga í bili.
17.10.2008 | 00:14
Fréttir úr borginni
Héðan er allt gott að frétta. Litla daman dafnar vel og er bara yndisleg. Eins er stóra systir hún er þvílíkt góð við þá litlu vill bara fá að horfa á hana, klappa henni og kyssa. Amman er því alsæl með stelpurnar sínar allar þrjár, því auðvitað er mamman líka stelpan hennar Á laugardags morguninn á svo að skíri litlu dömuna. Séra Jón Helgi ætlar að skíra hér heima. Það verður auðvitað bara yndislegt. Það verður ekki nein stór veisla en samt ætlum við nú að gleðjast saman og næra okkur aðeins. Ég bíð spennt eftir nafninu sem er auðvitað leyndarmál hjá þeim hjónum. Aðalheiður Karen er hörð á að litla systir eigi að heita Karen Sigga veit nú ekki af hverju henni dettur það í hug.
Sigurgeir, Heimir og Eva María koma keyrandi á morgunn og Bergur og Þóra Kristín koma á morgunn en Hulda Karen kom í dag. Ekki er neitt spennandi sjóveður fyrir þau en vonandi blessast þetta allt. Einnig ætla langamma Ella og Langi Maggi að keyra hingað suður á morgunn.
Hlakka til að fá ferðalangana á morgunn
11.10.2008 | 13:53
Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn
Má til að setja nokkrar myndir af litlu prinsessuni hér
fyrst er prinsessan nýfædd. Stóra systir komin í heimsókn. Mæðgur tilbúnar að fara heim. Stolltur móðurbróðir, stóra systir með litlu systur og svo aupvitað pabbinn. Taka þær systur sig ekki vel út?
Ég Heimir og Eva vorum komin suður rétt rúmlega fjögur og fórum þá beint að sækja Aðalheiði Karen í leikskólann. Hún vissi ekki að hún væri orðin stóra systir fyrr en við komum. Við brendum svo beint upp á Kvennadeild og þau fóru þá að græja sig til heimferðar. Ég reikna með að stoppa hér í Rvík í rúma viku en Eva og Heimir fara heim á mánudag.
Það gengur allt vel hér í Safamýrinni þannig að lífið er bara gott.
10.10.2008 | 09:09
Mikil hamingja
9.10.2008 | 07:51
Hvað er í gangi
Þá á ég ekki við bankakreppuna heldur það að menn raupa og raupa um vandann og á ég þá ekki við ríkisstjórn og þá sem eru að vinna í að reyna að bjarga hlutunum. Heldur allt annað sem birtist á prenti og talað er um í ljósvakamiðlum. Gæti t.d. verið að nú væri að sannast að við tölum kreppu yfir okkur. Þetta ástand er allavega orðið þannig að ég held að menn ættu að fara að tala um eitthvað annað og láta þá sem eru að vinna í þessum málum sjá um að gefa upplýsingar þegar það er tímabært. Mis vitrir spekingar hafa tjáð sig um það sem þeim finnst vera ástæða alls þessa og hafa jafnvel komið með bölspár til handa þjóðinni allri og ríkisstjórninni líka. Hafa menn ekki hugsað að hér eru erlendir fréttamenn, erlendir ferðamenn og erlendir íbúar landsins og þeir kannski skilja ekki allt rétt sem sagt er og fara því jafnvel með afbakaðar fréttir til útlanda. Ég var stödd á Rhodos fyrir mánuði síðan og þá var mikið talað um fjármála kreppuna í heiminum í fréttum. Í hverjum einasta fréttatíma var verið að tíunda ástandið í fullt af löndum bæði hvað varðar kauphallir, banka og aðrar fjármálastofnanir. Það vakti athygli mína þegar ég kom heim að þetta ástand sem virtist vera mikið í erlendu fréttunum var ekki á síðum þeirra blaða sem biðu mín heima. Héðan í frá getum við ekki annað en tekið því sem orðið er en ég vona svo sannanlega að menn læri af þessu öllu þegar upp verður staðið. Þar með er ég búin að rausa út um þetta mál.