Aðventan

Nú er loksins komið að því. Get með góðri samvisku sett hluta jólaljósanna í gluggana. Í morgunn er ég búin að hengja upp jólagardínur í eldhúsið og þvottahúsið og setja jólastjörnu í þvottahúsgluggann. Eftir er að setja aðventuljósið í eldhúsgluggann, það kemur eftir smá stund. Laufabrauð var gert í gær með mömmu og pabba en það er líka eitt merki þess að aðventan sé að ganga í garð. Síðan var borðað hangikjöt og tilheyrandiSmile Síðar í dag ætla ég að föndra aðeins, Eva María ætlar að koma og föndra með mér. Karlakórinn er að syngja á tónleikum með kvennakórnum og sálubót til styrktar mæðrastyrktsnefnd í dag svo Sigurgeir verður þar.

Annars er það svona helst að frétta að tengdamamma er komin hálfa leið heim það er hún er ekki lengur hér á sjúkrahúsinu heldur er hún komin á sjúkrahúsið á Húsavík. Það kalla ég nú gott miðað við það sem gengið hefur á síðasta mánuð. En hún er sterk þessi elska og það hjálpar henni eflaust mikið. Sigurgeir hefur ekki fengið aðra vinnu en það er svo sem ekki mikið um að vera þessa dagana en vonandi rætist eitthvað úr eftir áramót og þá fyrir 1. febrúar en þá er uppsagnarfresturinn hans búinn. Heimir hefur ekki fengið neina vinnu enn hvorki með skólanum né í jólafríinu.

Litlu skotturnar mínar í borginni eru orðnar góðar af hlaupabólunni svo það hljóta að fara að koma fleiri myndir af þessum elskum.

Ég ætla að skreppa suður á þriðjudagskvöld og heim aftur á fimmtudagsmorguninn. Halldóra þarf í smá aðgerð og ég ætla að passa litlu dömuna á meðan (það verður nú ekki leiðinlegt). Hlakka mikið til að sjá þær.´

Jæja nú er best að drífa sig í að gera eitthvað af viti. En svona í lokinn ætla ég að setja hér vísu sem ég tók af heimasíðu Skúla föðurbróður míns, en ég finn oft hugljúf ljóð þar.

Aðventa.


Brátt nálgast sú helgasta hátíð í bæ
með heilögu ljósunum björtum
andi guðs leggst yfir lönd, yfir sæ
og leitar að friði í hjörtum.
!
En nú virðist fegurðin flúin á braut
friðurinn spennu er hlaðinn,
lífsgæðakapphlaup og kauphallarskraut
er komið til okkar í staðinn.
!
Þá vill hann oft gleymast sem farveg oss fann
fæddur á jötunnar beði,
við týnum úr hjartanu trúnni á hann
og tilefni jólanna gleði.
!
Vökvaðu kærleikans viðkvæmu rós
þá veitist þér andlegur styrkur,
kveiktu svo örlítið aðventuljós
þá eyðist þitt skammdegismyrkur.
!
það ljós hefur tindrað aldir og ár
yljað um dali og voga,
þó kertið sé lítið og kveikurinn smár
mun kærleikur fylgja þeim loga.
!
Láttu svo kertið þitt lýsa um geim
loga í sérhverjum glugga´
þá getur þú búið til bjartari heim
og bægt frá þér vonleysisskugga.

Hákon Aðalsteinsson

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hlakka til að fá þig! :)

Halldóra F Sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband