Meira um sumarfrí

Við komum sem sagt heim á föstudegi úr sumarbústaðnum. Það var auðvitað yndislegt eins og alltaf þegar maður kemur heim. Ég var líka hálf þreytt því ég var búin að vera slöpp af kvefi og skít nánast alla vikuna. En laugardagurinn rann upp fagur og mildur við pökkuðum saman og ákváðum að gista á tjaldsvæðinu á Húsavík næstu nótt þar sem við vorum á leið austur í Skúlagarð þar sem hjónin Ásta og Valdi buðu í 160 ára afmæli, en þau áttu bæði áttræðisafmæli þann fyrsta júlí. Þetta afmæli var tær snilld og gaman að hitta marga Keldhverfinga og  fleiri þar.

Jón og Þorbjörg voru líka á tjaldstæðinu á Húsavík með fellihýsið sitt. En við erum orðin eins og síðustu mólikanarnir þegar við förum í útileigu. Enn með gamla tjaldið sem við fjárfestum í fyrir 17 árum þegar stóra Miklagarðsútsalan var haldin. Ég vaknaði á jörðinni því vindsængin mín lak þannig að hún var nánast vindlaus. Auðvitað neitaði ég að vera þarna aðra nótt (finnst miklu betra að sofa í rúminu mínu) en það var nú samt ákveðið að fara gamla leið austur í Kelduhverfi þennan sunnudag, tengdapabbi ætlaði með okkur til að fræða Sigurgeir um leiðina og leiðbeina honum með hvar best væri að ganga hana. Sigurgeir er sem sagt að fara sem fararstjóri þarna fyrir gönguhópi í ágúst svo það er vissara fyrir hann að vita hvert hópurinn er leiddur og hvað fararstjórinn segir. Leiðinn sem við fórum var vart fær svona jeppling þannig að ég var frekar óróleg alla leiðina. Þessi leið er þó mjög falleg og vel gróin. Við komum niður í Laufás eftir umþb. 6 tíma í heiðinni. Við keyrðum svo eftir þjóðveginum aftur til Húsavíkur þar sem við skiluðum tengdapabba og fengum okkur næringu hjá tengdó, fórum svo og tókum saman tjald og dót sem var á tjaldstæðinu og héldum heim til Akureyrar.

Segja má að þoka hafi legið yfir Akureyri alla næstu viku, en við vorum heima fram til fimmtudags þá fórum við austur í Mývatnssveit í glampandi sól og fínu veðri. Það er nú alltaf fallegt þar. Við löbbuðum með gígunum við Skútustaði, stoppuðum svo við Höfðann, fórum að hringsjánni í Dimmuborgum og þar var hægt að sjá alla leið inn á Kerlingu það var svo bjart og gott veður. Jæja hvað um það við fórum í sjoppuna í Reykjahlíð og gæddum okkur á ís. Þaðan lá svo leiðin í jarðböðin. Eftir það var haldið heim á leið stefnan tekinn á Kísilveg og ekið sem leið lá niður að laxárvirkjun og síðan eftir þjóðveginum heim til Akureyrar. Eina lykkju lagði Sigurgeir þó á leið okkar eftir krókóttum slóða upp á Geitafell, þetta vil ég ekki muna því ég tapa bæði jafnvægi og geði á að fara svona upp á fjöll hvort heldur er akandi eða gangandi, en það var ekki stoppað fyrr en á toppnum. Ég get ekki lýst útsýninu þaðan því ég sá ekkert. En þeir sem ekki vita hvernig þessi klikkaða tilfinning er þekkja þetta ekki og skilja þar af leiðandi ekki um hvað málið snýst svo þetta verður ekki rætt frekar hér.

Föstudagurinn rann upp og þurfti að sinna ýmsum erindum áður en ég færi í flug til Reykjavíkur. Sigurgeir ætlaði austur á Húsavík að gera eitthvað fyrir tengdó og fara svo í seinbúið sextugsafmæli Óla Héðins. Þetta var auðvitað ekki neitt neitt sem við þurftum að brasa en við fórum þó í miðbæinn og versluðum smá og fórum á bláukönnuna og fengum okkur kaffi. Sigurgeir fór svo austur og ég í flug suðurSmile Helginni var svo eytt í faðmi litlu fjölskyldunnar og svo með Kristínu frænku sem var í heimsókn á landinu góða en hún býr úti í Ameríku. Við höfðum það nú rólegt á föstudagskvöldinu og ég fór til þess að gera snemma að sofa.

Á laugardeginum var ákveðið að við hittumst þrjár frænkur í Kringlunni til að skrafa og fá okkur ís. Þegar við vorum litlar tók hann Fúsi frændi okkur stundum um helgar og fór með okkur niður að tjörn og gaf okkur ís þegar við höfðum gefið öndunum og svona. Í minningunni var þetta oft gert en ég held nú samt að það sé eitt af því sem maður vill muna vel úr barnæsku því ég bjó auðvitað á Akureyri en Kristín og Kristbjörg báðar í Reykjavík. Kannski var þetta samt Fúsa leið til að tengja okkur frænkurnar því við erum allar á svipuðum aldri. Ísinn í Kringlunni klikkar ekki en það er verst að þurfa að sitja á gryfju handriðinu til að borða hann. Synir Kristbjargar og Róbert sonur Kristínar voru líka með þarna. Held að þeim hafi nú þótt við heldur hallærislegar frænkurnar en þetta var nú samt yndislegur tími. Þeir alveg frábærir allir saman og þær, það er alltaf gaman með þeim. Verst þykir mér að ég fæ alltaf höfuðverk ef ég stoppa lengi í þessum blessuðu verslunarmiðstöðvum.

Við Kristín fórum svo á Síma mótið í Kópavogi en þar voru Elín Björg, Inga Bjarney og Ólöf Rún að keppa í fótbolta. Hittum þar bæði Guðrúnu systir og Óla mág og svo Eyjólf bróðir ásamt Jóni Ágústi og Önnu Siggu þar. Ákveðið var að Róbert hennar Kristínar færi til Grindavíkur með Eyfa en Kristín ætlaði að gista með mér hjá Halldóru næstu nótt.

Kvöldið var dásamlegt við vorum bara tvær (söknuðum Kristbjargar heilmikið) grilluðum okkur, drukkum hvítvín og mösuðum langt fram á kvöld. Litla fjölskyldan kom heim um kvöldið og spjallaði heilmikið með okkur líkaSmile En stelpur bara takk fyrir frábærann dag. Á Sunnudeginum tókum við því svo rólega þar til ég þurfti í flug norður kl. 15.

En alvara lífsins er tekin við á ný. Þessi viku hefur liðið hratt við vinnu og húsverk, smá prjón og svo hef ég staðið við að mæta á Bjarg þessa vikuna. Engin miskunn nú fer á mínum tíma kl. 6:10 og er sæl og ánægð með að vera komin aftur í gang.

Þar til næst hafið það gott.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er sko líka ísbúð á 3. hæðinni hjá öllum veitingastöðunum þar sem er hægt að setjast niður við borð og borða ísinn og spjalla saman... :)

Halldóra F Sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 14:49

2 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

En hann er svo góður niðri á neðstu

Aðalheiður Magnúsdóttir, 19.7.2008 kl. 16:26

3 identicon

Takk, elsku Aðalheiður mín, fyrir frábæra samverustund og gómsætan ís. Mér fannst þessi óformlega spjall- og ísstund okkar innilega notaleg og eftirminnileg, og ég hugsaði heilmikið til ykkar um kvöldið. Ég vona að við eigum eftir að eiga margar fleiri stundir saman, frænkurnar.

Kristbjörg Clausen (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 07:11

4 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Takk sömuleiðis.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 21.7.2008 kl. 11:39

5 identicon

Hæ,hæ það er miklu flottara lúkk á síðunni þinni núna:-) Það hefur greinilega verið nóg að gera hjá ykkur í sumar. Það hefði verið gaman að fara í afmælið hjá Valda og Ástu. kv. Kristín

Kristín (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 11:39

6 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Já Kristín mín þetta er svo sem í lagi en ekki af mínum völdum. Ég á örugglega eftir að breyta þessu í ljósari lit aftur þegar bloggið verður komið í lag.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 31.7.2008 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband