8.7.2008 | 11:43
Sumarfrí
Já ég er í sumarfríi og er búin að vera það síðan 27. júní. Ljúfir dagar líða og eru senn á enda. Við byrjuðum á að keyra yfir Kjöl stoppa á Hveravöllum og halda svo suður á land. Við enduðum í Minni Mástungu sem er í Þjórsárdal, þar sem við höfðum sumarbústað í eina viku. Halldóra Friðný, Dúi Grímur og Aðalheiður Karen dvöldu þarna með okkur. Við reyndum að keyra svolítið um og skoða suðurlandið aðeins fórum bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri þar sem við skoðuðum veiðisafn, sem þar er. Skrítin tilfinning að skoða uppstoppaðan Gírafa, ljón og fleiri frumskógardýr hér heima á fróni, AKD var þó mjög hrifin af öpunum sem þarna voru uppstoppaðir. Þegar við komum til baka úr þessari ferð var auðvitað farið í pottinn og svo grillað á eftir.
Á degi tvö var húsmóðirin í rúminu náði ekki að bryðja nóg af töflum til að verða hitalaus (var búin að finna fyrir því að ég var að fá kvefpest áður en fríið byrjaði) jæja en hvað um það maður verður stundum að láta í minni pokann, mér er þó meinilla við það og er því nánast aldrei heima lasin. Aðrir fjölskyldumeðlimir fóru í sund og svona í Árnes sem er þarna skammt frá.
Á mánudeginum fórum við svo lengra upp í Þjórsárdal og skoðuðum bæði Stöng og Þjóðveldisbæinn þetta er mjög fallegt svæði og örugglega hægt að ganga heilmikið um þarna. Allaveganna sá ég það á mínum manni að hann hefði vel getað hugsað sér að tölta aðeins meira þarna. en það verður bara næst.
Á þriðjudeginum fórum við svo í Laugarás og skoðuðum Slakka. Þar fannst mér vanta meira af húsdýrum en kannski voru þau bara í felum. Við vorum bara þrjú á ferð þann daginn þannig að þeirri stuttu leiddist nú ekki að vera með afa og ömmu í dýragarðinum eins og skilja má. Í lokin fékk hún líka að spila smá minigolf á sína vísu.
Það var hestamanna mót á Hellu og því ekki hægt annað en skella sér að skoða þann stað. Þó ekki til að fara á mótið heldur til að berja staðinn augum Óskaplega finnst mér allt flatt og vítt á þessari leið. Vantar alla nálægð við fjöll og svona. En það er nú bara ég. Á Hellu mæltum við okkur mót við Sigga sem var á Hestamanna móti með drengina sína tvo. Keyrðum svo í Köldukinn þar sem þeir bræður eiga land og hann fræddi okkur aðeins um hvað þeir væru að plana þar. Eftir þetta skildu leiðir og við héldum til baka ætluðum í sund á Árnesi en þá var laugin þar lokuð svo við fórum í næstu laug sem heitir að ég held skeiðalaug. Fórum svo heim í bústað ánægð eftir daginn.
Fimmtudagurinn fór í að skoða meira í sveitinni og keyra líka upp að Laxárdal sem er rétt við Minni Mástungu. Þetta var vissulega síðasti dagurinn og nóttin í bústaðnum því það þurfti svo að pakka saman og þrífa á föstudeginum. En vikan var búin að vera góð, að vísu dulítið vindasamt en lítil sem engin rigning. Enda má segja að þarna vanti menn svolitla vætu fyrir gróðurinn. Við spiluðum yatzy á kvöldin og bara höfðum það gott. Lágum þó nokkuð í pottinum og svona. Enda á maður að slappa af í sumarfríinu sínu, ekki satt?
Það var ákveðið að keyra ekki hefðbundna leið norður svo leiðir okkar skyldu við Árnes og unga fólkið fór til Reykjavíkur en við keyrðum sem leið lá á Þingvöll og þaðan fórum við Uxahryggjaleið og komum niður í borgarfjörð. Ég hef ekki farið þessa leið síðan ég var barn en hafði mjög gaman af þessu brölti okkar þó vegurinn væri nú ekki mjög góður. En það er allavega búið að prufa nýja bílinn á öðru en malbiki og hef ég nú trú á að minn maður eigi eftir að finna margar leiðir til að keyra núna þegar hann loksins kemst út af malbikinu.
Það kemur meira frá sumarleyfinu fljótlega
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Þetta var bara mjög skemmtileg vika :D Takk kærlega fyrir okkur
Halldóra F Sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 11:52
Hæ gaman að heyra frá þér aftur;-) já er ekki gott að vera í sumarfríi með fjölskyldunni?
Hér er bara unnið og spilað golf þess á milli, en það er líka fínt.
Kveðja Kristín
Kristín (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 18:59
Sjáumst í Kringlunni á eftir krúttið mitt
Kristbjörg Clausen (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 09:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.