24.7.2007 | 16:13
Sumarfrí
Við erum sem sagt í sumarfríi. Fórum á laugardag sem leið lá austur í Mývatnssveit það sem við fórum í jarðböðin og héldum svo áfram austur og stoppuðum næst í Möðrudal. Þar er verið að byggja heilmikið upp og búið að smíða hús í burstabæjarstíl meira að segja utan um bensíndælurnar. Þaðan lá leiðin til Egilsstaða þar sem við hugðumst tjalda eða þá kaupa okkur gistingu á Edduhóteli, en við gengum beint í fangið á vinafólki okkar sem var með sumarhús á leigu þar og buðu okkur gistingu sem við þáðum með þökkum. Þarna var kærkomið að eyða tíma með Erlu og Má sem við höfum séð alltof lítið af undanfarin ár. Á sunnudaginn drifum við okkur svo til Eskifjarðar, Reyðafjarðar og á Neskaupstað. Mér finnst persónulega alltaf mjög gaman að koma á Eskifjörð enda á ég rætur að rekja þaðan en afi Lórenz var fæddur þar og uppalinn. Húsið sem hann átti heima í og langamma bjó í til dauðadags stendur enn og finnst manni skrítið hvernig margt fólk gat búið í jafn litlu húsi og það er. En svona er þetta. Húsið heitir Bakki og ég man að mér fannst ég rík þegar ég var lítil að eiga ömmu á Bakka þegar sungið var "afi minn og amma mín út á Bakka búa" Eftir þennan rúnt okkar gistum við aftur hjá Erlu og Mása en fórum svo á mánudagsmorgun sem leið lá upp í Mývatnssveit og til Húsavíkur þar sem við tókum tengdó með okkur austur í Kelduhverfi. Við fórum auðvitað í Ásbyrgi og skoðuðum líka nýja Gljúfrastofu sem hefur verið opnuð það. Keyrðum svo bæði að Bjarnstöðum og á Landsbæjina. En héldum svo til baka því við áttum eftir að huga að leiðunum í kirkjugarðinum og gerðum það í bakaleiðini. Þurfum að lagfæra þar næsta vor leiðið hennar Halldóru Friðnýjar og sjálfsagt eitthvað meira. Komum svo aðeins við í Garði og köstuðum kveðju á Fljóðu. Sigurgeir þurfti auðvitað að mynda æskustöðvarnar aðeins eins og gengur og gerist. Við fórum þó ekki inn í kirkjuna núna. Skiluðum svo þeim gömlu aftur heim á Húsavík eftir góðan dag þeim leiðist aldrei að fara í hverfið þó svo að margt hafi breyst á þessum fáu árum síðan þau fluttu ínn á Húsavík.
Í dag erum við svo bara í leti eða þannig erum að undirbúa brottför á ný en ég fer suður og Sigurgeir á Hornstrandir á fimmtudag meðan Heimir fær ekkert frí og er bara heima.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.