9.7.2007 | 19:56
Ferðin til Tallin og Finnlands
Þá er loksins komið að því að ég setji hér nokkra punkta inn um ferðina út. Við flugum sem sagt til Tallin héðan frá Akureyri um miðnættið 20. júní og lentum í Tallin um kl. 6 að morgni að Eisnenskum tíma. Hótelherbergin voru nú samt ekki laus fyrr en um hádegi þannig að það þurfti að drepa tímann fram að því. Við fengum morgunmat á öðru hóteli og gátum nytt okkur gufu og pott þar. Allir fengu sér í svangin en fáir höfðu áhuga á gufu og potti. Menn voru að vonum þreyttir þegar við fengum loks Hótelherbergin en allt í lagi þó. Kórinn átti að syngja kl. sex sem gestakór með þrem Eistnenskum kórum. Um kvöldið var svo farið í sameiginlegan kvöldverð þar sem bjórin er bruggaður á staðnum, þar voru líka gömlu félagarnir hans Valmars að spila og fyrirfram ákveðið að hann spilaði með þeim þetta kvöld. Mér tókst að týna mínum manni og missa af rútuni þetta kvöld en það varð bara til þess að ég lærði vel leiðina í og úr bænum:)
Á degi tvö var farið í skoðunarferð til Pärnu Þar sem við skoðuðum nýtt tónlistarhús og fleiri merkilega staði, fengum mat á svona þjóðlegu veitingahúsi Síðan var farið niður að strönd og menn gátu aðeins dýft tánum í sjóinn. Um kvöldið fórum við svo út að borða á Old Hansa sem er veitingastaður í fornum stíl. Menn voru búnir að róma staðinn mikið en ég varð fyrir vonbrigðum með matinn. Kvöldið var engu að síður gott í góðra vina hópi.
Á þriðja degi var farið í göngu um gamla bæinn og ýmsir merkilegir staðir skoðaðir. Á þessari göngu sá maður hvað þessi þjóð er vinaleg Við stoppuðum um stund á útsýnisstað þar sem fullt var af litlum búðum fararstjórinn benti okkur á að það væri hægt að fara á klósett hjá búðareigendunum. Ég fann mér eina slíka búð og fékk að nota salernið, þegar ég kom inn þangað blasti við mér skrítin sjón því þetta var ekki eingöngu salerni heldur kaffiaðstaða starfsfólksins og þarna héngu yfirhafnir starfsmanna líka þar að auki voru eitt sett karmenrúllur í sambandi þarna, sennilega hefur einhver afgreiðslustúlkan átt eftir að laga á sér hárið. Eftir gönguferðina var smá laus tími fyrir fólk en síðan var farið í rútuferð um borgina. Síðan var hópurinn allur boðin í mat þar sem við borðuðum í leikhússal og fengum meðal annars heilgrillað svín. Skemmtilegt kvöld eins og hin voru.
Dagur fjögur þá mátti sofa aðeins lengur því það var engin dagskrá fyrir hádegi en karlarnir þurftu að mæta á æfingu fyrir konsert sem er kl. 5. þeir æfðu frá 12-2 en á meðan fóru konur ýmist í magasínið sem var á móti hótelinu eða röltu í gamla bæinn sem er líka steinsnar frá hótelinu. Kl. 5 var svo farið á konsert og eftir það var farið á Jónsmessu hátið sem er árleg og sett upp í svona safni með gömlum húsum í líkingu við Árbæjarsafn. Þarna var hægt að kaupa sér grillaðan mat og drykki, bálkestir voru víða á svæðinu og ýmsar uppákomur við þá. Þetta var virkilega skemmtilegt og gaman að vera þar sem sér Eistnenskt jónsmessukvöld var.
Nú er komið að degi 5 og þá þurfa ferðalangar að segja skilið við fína hótelið í Tallin sem heitir Talink. Lagt er upp í dagsferð til Haapsalu ýmislegt er skoðað á þeirri ferð bæði Kastali og hús þar sem Ilon Viklund átti heima í. Ilon þessi teiknað myndir í bækur Astridar Lindgren. Þegar skoðunarferðinni var lokið var haldið um borð í ferju sem sigldi yfir í eyjuna Saaremaa. Það var nú upplifun að vera þar því við gistum í smáhúsum þar sem aðeins voru 2 rúm í einu herbergi svo voru klósett hús eins og á tjaldstæðum og eitt hús sem matur var framreiddur í. Gaman samt.
Dagur 6 er runnin upp og það er nú svosem vert að segja frá því að þetta er líka sjötti sólardagurinn sem sólin skín:) Nú liggur leiðin um eyjarnar og síðan aftur í ferjuna og til Tallin þar sem ná þarf Ferju til Finnlands. Við komum um borð í Nordlandia um kl.17 og þá var farið að tékka sig inn á káetur og svo mætt í kvöldverðarhlaðborð þar sem kræsingarnar flóðu svo sannarlega. Skipið sigldi svo yfir til Finnlands og var komin þangað um 22 þá fóru menn að týnast í koju því það var sofið um borð í ferjunni .
Þá er það dagur 7 við förum í rútuferð um Helsinki og svo er keyrt til Lahti þar sem við fáum Hótel herbergi. Tónleikar eru haldnir í Kirkju þarna en því miður var aðsókn að þeim léleg með eindæmum og hefur sennilega eitthvað klikkað í sambandi við auglýsingar. Síðan er farið um borð í pramma eða eitthvað því um líkt og þar er sjávarréttarhlaðborð. Það er búið að rigna þennan dag í Finnlandi og heldur kalsasamt þannig að það var ekki spennandi að sitja í tjaldi og borða. Maturinn var þó góður og hefði verið reglulega gaman að vera þarna í góðu veðri. Fórum heim á hótel á eftir kíktum á einn bar þar við hliðina en forðuðum okkur fljótt því hann var ekki spennandi.
Dagur 8 Nú fer að líða að seinnihluta ferðarinnar. Í dag er ferðinni fyrst heitið í móttöku hjá bæjarfélaginu þar sem Lathi er vinarbær Akureyrar. Móttakan er kl. 9 að morgni og þar tekur bæjarritari staðarins á móti okkur. Það þótti nú svolítið sérstakt að okkur var boðið upp á kampavín en hvað um það svo talaði þessi maður í klukkutíma. Þá var farið í skoðunarferð um Sibeliusarhöll sem er hreint frábær. Síðan er svofarið í siglingu þar sem við fáum að borða um borð í skipi sem siglir um stórt vatn Harmonikkuleikar spilar líka meira og minna alla ferðina. Þegar við komum aftur að landi er farið aftur um borð í Nordlandia sem á að flytja okkur aftur til Tallin. Í þetta skiptið komum við um borð eftir kvöldmat og nú förum við að sofa áður en siglt er.
Klukkan 8 um morgunn er siglt af stað og komið rétt undir hádegi til Tallin. Þá er farið á generalprufu af dans festivali þar sem 8000 börn koma saman og sína ýmsa dansa þessi uppákoma var þvílík skemmtun. Hefðum gjarnan viljað sjá meira af þeirri sýningu. Eftir þetta er lagt af stað á spa hótel sem við eigum að gista á síðustu nóttina á ferðalaginu. Það er þó komið við í einu magasíni á leiðinni þar sem menn geta hvort heldur er verslað eða bara fengið sér kaffi. Síðan er haldið áfram og komið á Hótelið um kvöldmat. Þar er boðið uppá hlaðborð sem aðallega saman stendur af grænmeti og grænmetisréttum þetta var fín tilbreyting frá kjötinu. Þessi staður er þó afskekktur og lítið um að vera þarna. Við dvöldum þó fram eftir kvöld í sal sem var þarna og menn tóku lagið og svona.
Þá er komið að 10 og síðasta deginum í dag á að keyra inn til Tallin og fara fyrst á æfingu á söng festivali sem fer þar fram um kvöldið. Þarna koma margir kórar saman og syngja þessir kórar telja um 24000 manns þannig að þeir sem þekkja til kórasöngs geta ímyndað sér hversu stórt þetta er. Eins og dans festivalið þá var þetta hreint og klárt frábært. Síðan er laus tími í Tallin og nýttu flestir hann til að fara í búðir á markað og rölta í gamlabænum enda nóg að sjá. Menn fengu sér líka að borða kvöldmat áður en haldið var á flugvöllinn til heimferðar. Það voru þreyttir en ánægðir Eistlands og Finnlands farar sem lentu á Akureyrarflugvelli um kl. 23:30 um kvöldið og dásamlegt að geta keyrt beint heim að sofa.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Greinilega endalaus ferðalög! :P
Gott að það var gaman samt... :)
Halldóra F Sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 13:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.