Stiklur ársins 2009

Stiklur Sigurgeirs og Aðalheiðar 2009. Nú líður að jólum, skrítið hvað manni finnst tíminn líða hratt. Árið er liðið áður en maður veit af. Er það ekki bara merki um að maður hafi nóg fyrir stafni og finnist bara gaman að lifa. Það höldum við hér á bæ. Árið 2009 hefur fyrir margar sakir verið ánægjulegt. Við höfum bæði verið í fullri vinnu og verið hraust sem auðvitað má alltaf þakka fyrir. Sigurgeir sá þó lengi vel bara þrjá mánuði fram í tímann í sinni vinnu en er nú orðinn fastráðinn á ný. Heimir lauk stúdentsprófinu sínu í maí og er því sá áfangi að baki. Hann er nú fluttur að heiman, leigir með vini sínum og lætur vel af sér. Drengurinn ákvað að fara ekki í skóla í vetur og var svo heppinn að fá vinnu í Slippnum svo er hann líka byrjaður að vinna sem dyravörður á Kaffi Amor. Á vordögum fjárfestum við skötuhjúin í notuðum tjaldvagni sem  nýttist okkur vel í sumarfríinu okkar sem og á ættarmóti sem haldið var austur í Skúlagarði í júní.

r var vagninn reyndar  vígður  og sváfum við sjö í honum. Greinilega gott pláss þar.  

Í sumarfríinu fórum við suður á land upp í Landmannalaugar í dagsferð og svo vorum við nokkrar nætur að Laugalandi í Holtum. Aðalheiður Karen var með okkur þar. 

Halldóra Friðný kom svo keyrandi norður með Jóhönnu Kristínu í samfloti með okkur.  Það var skroppið á Húsavík og í Kelduhverfi, sem dótturinni finnst algjörlega nauðsynlegt.
Fiskidagurinn var svo tekinn með trompi og dvalið á Dalvík í tjaldvagninum. Á haustdögum var svo blásið til veislu í tilefni af hálfrar aldar  afmæli húsfreyjunnar.

Reyndar var afmælisdeginum sjálfum varið með foreldrum hennar austur á Héraði, Þar dvöldum við í sumarhúsi að Miðhúsum og heimsóttum bæði Kárahnjúka og Seyðisfjörð. Borðuðum líka dýrindis hreindýrasteik á Kaffi Nielsen á Egilsstöðum.

Síðan var boðið til veislu í Lóni sem konan er hæst ánægð með.  Seinni hluta nóvember kom svo bakslag í fjölskylduna þar sem faðir húsfreyju fór í hjartaþræðingu og var kyrrsettur á sjúkrahúsinu, þar sem miklar stíflur voru í þeim gamla en hann er seigur karlinn sá og er nú á bata vegi eftir stóran hjartaskurð. En gerðar voru fimm hjáveitur á stóru æðunum til hjartans. Um jólin verður svo faðir húsbóndans níræður og ætlar fjölskyldan að hittast í Reykjavík á jóladag og fagna með honum. Það verður því breyting á jólahefðinni hér og dvalið í höfuðborginni um jólin. Það er svo sem ekki leiðinlegt því þar eru jú dóttirin , tengdasonurinn, dótturdæturnar og svo systkini okkar beggja. Einnig verða foreldrar húsfreyju fyrir sunnan.Þetta eru nú svona helstu punktar ársins. Við einfaldlega njótum þess að vera til.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband