Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Áramótaheit

Hvað er nú það jú margir ákveða að hætta að reykja aðrir lofa sjálfum sér einhverju öðru. Ég lofaði sjálfri mér að nú skyldi ég geta vaknað á morgnana kl.5:45 og fara í ræktina þrisvar í viku. Nú skal reynt að standa við það og dragúldin konan hefur komið sér niður á Bjarg þessa vikuna tvisvar sinnum þannig að ég er full bjartsýni. Það hafa greinilega margir horft til þess sama því það eru mun fleiri við æfingar nú en voru fyrripartinn í vetur.

Svo lofa ég líka að vinna minna en síðustu mánuði.  Allt gott og blessað bara hvort ég stend við þetta. Kemur í ljósCool


Nýtt ár gengið í garð

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.

Ég segi nú eins og sumir aðrir kannski maður verði að hætta að blogga eftir áramótaskaupið. Annars fannst mér það ágætt, en ég var víst ein um þá skoðun heima hjá foreldrum mínum á gamlaárskvöld. Áramótin voru róleg hjá okkur við borðuðum hjá m og p horfðum á sjónvarpið og svo skutu pabbi og Sigurgeir upp smávegis af flugeldum. Ég fékk ofnæmi fyrir einhverju, sennilega kryddinu í matnum og var því hálf ónýt af þeim sökum. Heimir fór á Siglufjörð strax eftir mat og var kominn þangað áður en skaupið byrjaði. Hann kemur heim á morgunn og væntanlega kemur Eva með honum.

Vinnan hófst aftur strax annan janúar og er það bara ljúft. Nú er ég komin alveg í nýja starfið og þarf því ekki að skipta mér á milli deilda lengur. Auðvitað er margt að læra og hugmyndir ýmsar um í hvaða farveg skal stýra verkum. Þetta kemur samt allt.

Um áramót á ég það til að gera nýliðið ár upp í huga mér og er engin undantekning á því nú. Í heild var árið sem var að líða gott. Allir heilsuhraustir í fjölskyldunni þannig að ekki þarf að kvarta heldur á maður að þakka fyrir það  því heilsan er afar dýrmæt hverjum manni. Ég kláraði skólann, Halldóra Friðný tók ákvörðun um að fara í áframhaldandi nám, byrjar það reyndar á næsta mánudag og Heimir heldur áfram í VMA og í tónlistarskólanum. Utanlandsferðirnar urðu þrjár til fjögurra landa, Eistlands, Finnlands, Spánar og Bandaríkjanna. Tvær voru hópferðir en sú þriðja skemmtileg systra, mágkonu ferð gaman að því.

Jæja ég læt þetta duga í

bili en læt þó fylgja með nokkrar myndir af skottu minni teknum um áramótin.

IMG_3634IMG_3636IMG_3653IMG_3657IMG_3667


Yndisleg jól

Þá er maður komin aftur til hversdagsins eða þannig, vinnan tekin við leti undanfarina daga. En jólin hjá okkur eru búin að vera yndisleg. Á aðfangadagskvöld vorum við átta, auk okkar heimafólksins voru foreldrar mínir, foreldrar Sigurgeirs og svo Gunnar föðurbróðir minn hjá okkur. Það vantaði bara litlu fjölskylduna í Safamýri og svo auðvitað Evu Maríu sem er á Siglufirði hjá foreldrum sínum. Jólahefðirnar eru sterkar og hjá okkur hefur matseðillinn verið eins frá því að ég man eftir mér, þ.e. gæs og möndlugrautur á aðfangadag og svo hangikjöt á jóladag. Við borðum heima hjá okkur á aðfangadag og hjá mömmu og pabba á jóladag. Á aðfangadagskvöld fórum við í miðnæturmessu í Glerárkirkju ásamt tengdaforeldrum mínum. Þetta var óhefðbundin messa þar sem séra Arnaldur sá um messuna ásamt djáknanum honum Pétri Björgvin. Kórinn var dreifður um kirkjuna og söngurinn safnaðarsöngur þ.e. söfnuðurinn söng með í öllum sálmum. Siðan var prédikunin líka óvenjuleg þar sem þeir Arnaldur og Pétur tóku textan úr sálminum "'i dag er glatt" og ræddu út frá honum. Ég læt hér fylgja fyrsta erindið.

 

Í dag er glatt í döprum hjörtum,
því Drottins ljóma jól.
Í niðamyrkrum nætursvörtum
upp náðar rennur sól.
Er vetrar geisar stormur stríður,
þá stendur hjá oss friðarengill blíður,
og þegar ljósið dagsins dvín,
:,: oss Drottins birta kringum skín. :,:

Persónulega finnst mér gott að enda aðfangadag á að fara í messu, aðeins eitt sem ég er samt ekki innstillt á það er þessi altarisganga sem alltaf er í messum í dag. En svona er þetta víst bara orðið.

Jóladagur var tekinn rólega heima fram að kvöldmat, en þá var haldið til mömmu og pabba í hangikjöt auðvitað voru tengdó með okkur og svo voru Magga og Sölvi ásamt börnum líka boðin til þeirra í mat. Eftir kvöldmat fórum við heim og horfðum á sjónvarpið og á myndina Mýrina sem tengdó fékk í einum jólapakkanum. Þetta var góður dagur í friði og róSmile

Á annan dag jóla var ekki mikið um að vera heldur Sigurgeir sótti þó Önnu og Friðrik í smá kaffi áður en hann fór með foreldra sína í rútuna austur á Húsavík. Síðan komu mamma og pabbi og borðuðu með okkur kvöldmat.  Um kvöldið var svo horft á sjónvarp þar sem boðið var upp á þrjár íslenskar myndir.

Ég rændi nokkrum myndum af litlu fjölskyldunni sem var í Vestmannaeyjum þessi jólSmile

IMG_3505[1]IMG_3534[1]IMG_3540[1]

Gleðileg jól öll.


Gleðileg jól!

Gleðileg jól til ykkar allra

Kveðja

Heiða


Mollin í Ameríku

Jæja þá erum við stöllur komnar heim heilar á húfi. Engin týnd og allar réttum megin hjá tollinum. Já við komum til landsins kl. 6:30 í gærmorgunn, með allar töskur fullar eins og íslenskum konum sæmir. Búnar að þræða Wal-mart. Targett, Towson hall og Arundel Mills. Við flugum sem sagt út á miðvikudag kl 17 og lentum í Baltimore kl. 18 að þeirra tíma tókum leigubíl á hótelið og opnuðum tómu töskurnar, reyndar vorum við með mis mikinn farangur en sem betur fer var ekkert viðkvæmt í töskunum því tvær þeirra voru mjög blautar þegar við fengum þær á flugvellinum í einni voru nærföt svo blaut að það mátti vinda þau. Skil ekki hvernig þetta hefur blotnað svona. Að vandlega hugsuðu máli ákváðum við að halda okkur á hótelinu þetta kvöld, borðuðum þar og bætum á okkur aðeins hvítvíni áður en við fórum að sofa.

Upp rann fimmtudagur og allar vöknuðum við kl. 7 fórum á fætur drifum okkur í morgunmat, síðan kl 8 var stefnan tekin á fyrsta mollið sem var Wal mart þar skildu verð skönnuð og keypt leikföng. Auðvitað var auðvelt að finna varning þarna og þvílíkt magn af vörum sem þarna fannst. Við keyptum þó ekki mikið annað en dótið. vorum komnar aftur á Hótelið kl.10 enda ákveðnar í að fara í Arundel Mills þennan dag. Þangað fórum við með eina ferðatösku sem við drógum á eftir okkur allan daginn, en þvílíkur munur að þurfa ekki að halda á öllum pokunum. Mæli með töskum í verslunarleiðangra. Við vorum að þarna til rúmlega sex og þóttumst skila drjúgu dagsverki. Kvöldinu eyddum við á Hardrock sem er staðstett við höfninu og var í göngu færi við hótelið sem við vorum á.

Á föstudeginum var dagurinn aftur tekinn snemma og farið í Towson Hall þar var sami háttur hafður á farið í gegnum búðirnar með ferðatösku og keypt það sem ætlað var. Þetta kvöld borðuðum við í Mollinu á góðum veitingastað drukkum auðvitað hvítt, rautt eða bjór bara hvað hver okkar vildi. Fengum okkur svo leigubíl í Targett og kláruðum kvöldið þar. Góður dagur þetta verið á rölti frá 9 til 22 ekki slakt það.

Laugardagurinn var ákveðinn þannig að það átti að sofa út en við vorum þó allar komnar á fætur kl. rúmlega 8 og klukkan 10:30 mættar aftur í Arundel Mills. nú með flugfreyjutöskur.  Á nokkrum tímum tókst okkur að fylla þær og vorum við komnar á hótelið aftur um kl. 19 þá var ákveðið að borða bara þar.   Við vorum komnar í mat um átta og aftur upp á herbergi fyrir tíu þreyttar eftir daginn.

Sunnudagurinn var notaður til að skoða íþróttasafn niðri við höfn, að mestu leiti var þetta Hafnarbolta saga. Við röltum svo þarna um hafnarsvæðið fram undir tvö þá fórum við upp á hótel og gerðum okkur klárar í flug. Fórum á flugvöllinn kl fjögur, flugið var á réttum tíma um átta og lent hér heima kl. 6:30 á mánudagsmorgni.

Ég flaug svo heim um hádegið kom þreytt en ánægð með ferðina heim. Þetta var sko sannkölluð verslunarferð. Takk fyrir samveruna stelpur, þetta væri gaman að endurtaka hlæja og hafa gaman hver af annarri.

 


Laufabrauð

Loksins get ég verið sátt við að jólin nálgist því ég var að enda við að gera laufabrauð:) Það er sem sagt algjörlega ómissandi á mínu heimili um jól. Í gærkvöldi var jólahlaðborð hjá starfsfólki ráðhússins fínasti matur og allt það, ég var nú samt ekki upp á marga fiska þar sem ég er búin að vera að drepast úr kvefi að undanförnu. Hef verið með hitavellu í nokkra daga en þetta hlýtur að fara að taka enda.

Nú styttist líka í Baltimor aðeins þrír dagar í brottför. Ekki veit ég út í hvað ég er að fara en er ákveðin í að hafa gaman af. vonandi kem ég afslöppuð heim og verð bara tilbúin að taka á móti jólunum á að vísu eftir að vinna ýmis verkefni fyrst en þetta kemur allt.

Lemjandi hóstann kveð ég í bili

Góðar stundir


Afmæli aldarinnar

Já það má nú segja að ég hafi farið í afmæli aldarinnar um síðustu helgi. Það var mikið um dýrðir afmælis börnin afþökkuðu allar gjafir en bentu fólki á að söfnunarkassi til styrktar krabbameinssjúkum börnum yrði á staðnum. Það safnaðist drjúg upphæð í kassann og hjónin voru ánægð með partíið sem og veislugestir. Maturinn var frábær og drykkirnir runnu ljúflega niður. Tónlistin var ekki af verri endanum enda sat Óskar Einarsson (oft nefndur Óskar gospel) við píanóið. Karen Lind söng þrjú lög þar á meðal var Bíddu pabbi sem mér fannst einstaklega fallegt hjá henni. Eyrún söng líka bæði með Karen og svo ein og sér, þær voru báðar frábærar frænkurnar.

Ferðin suður heppnaðist á alla kanta vel, að vísu þá heimsóttum við ekki þá sem við ætluðum enda ekki við því að búast. Sigurgeir var hálf lasinn þegar við fórum á stað og því ekki eins mikill kraftur í okkur og stundum áður. En það var ljúft að hitta litlu dömuna hún flaug um hálsinn á mér þegar ég sótti hana á leikskólann. Ekki var heldur neitt leiðinlegt að hitta dótturina og tengdasoninn með þeirri fjölskyldu var mestum tíma eytt í þessari ferð. Íbúðin var frábær, útsýnið geggjað og við endurnærð eftir dvölina í borginni. Fengum leiðinda veður á leiðinni heim alveg frá því á Blönduósi og heim.

Nú styttist óðum í næsta ferðalag en það er Reykjavík á þriðjudagskvöldið 11 og út til Baltimor þann 12:) alltaf á faraldsfæti þessa dagana. Hvenær eru annars jólin?Halo


Reykjavík um helgina

Þá er loksins komið að því. Við erum á leið suður á morgunn. Búin að fá íbúð um helgina og skal nú slappað af og leikið sér. Planið er að keyra suður í fyrramálið og auðvitað á ég mér þann leynda draum að sækja skottuna mína í leikskólann en það verður samt að koma í ljós hvort það tekst. Á föstudag förum við skötuhjúin svo bæði til augnlæknis. Ég í þriggja mánaða eftirlit eftir aðgerðina en Sigurgeir fer til Gunnars Ás. Kominn tími á hann að láta skoða sín augu þar sem maðurinn er 51. árs og hefur aldrei til augnlæknis komið. Svo er stefnan tekin í leikskólan til AKD þar sem er jólaföndur milli 2 og 4, amma og afi ætla sem sagt að föndra með blómarósini.

Á laugardaginn er svo heljarinnar veisla hjá Óla mág og Guðrúnu systur þar sem þau eru að halda upp á að hafa bæði orðið 40 ára á þessu ári. Það verður örugglega mjög gaman að gleðjast með þeim, enda ekki mikil leiðindi í kringum þau hjón.

Guðrún Jóna og Óli Björn

Ég segi nú kannski seinna frá þessu partíi.

Í vinnunni er nóg að gera þannig að mér leiðist ekki. Ég er líka aðeins að komast í jólagírinn búin að þvo stofugluggana og gardínurnar þar þannig að jólaljósin fara upp þar næstu daga. Eldhúsið er líka orðið klárt fyrir aðventuljós og jólagardínur enda fyrsti sunnudagur í aðventu um helgina. Jólapóstpokinn er líka langt kominn, þar með er líka upp talið það sem ég er búin að gera fyrir komandi jól. Ég hef þó lært það undanfarin ár að jólin koma alveg jafnt þó ekki náist að bóna alla veggi og baka 20 smáköku sortir. Það eru fínar smákökur í Bakaríinu við brúna og eins frá kexsmiðjuni svo þetta er allt í góðum gír.

Jæja hætt að rugla og farin að vinna

Góðar stundir


Nóvember líður hratt.

Laugardagur runninn upp og veðrið ekki upp á sitt besta. Ætlaði að fara við jarðarför í dag austur í Þorgeirskirkju en ákvað að fara frekar í vinnuna. Ekki vegna þess að ég taki hana fram yfir Harald Karlsson bónda frá Fljótsbakka, heldur vegna þess að ég vil ekki vera á ferð í snjókomu og stormi.  Foreldrar mínir og Sigurgeir drifu sig þó austur.  Ég hugsa hlýtt til Helgu, Kalla, Sigga, Óla og þeirra fjölskyldna þau eiga huga minn í dag.

Annars mætti ég í vinnu í gærmorgunn í fyrsta skipti með ráðningarsamning sem viðskiptafræðingur, það er pínu skrítin tilfinning að vera að flytjast á milli hæða, en starfið sem skrifstofustjóri heillar svo það er ekki nema bara spennandi að takast á við þetta nýja verkefni. Jafnframt lít ég svo á að ég hafi allt að vinna en engu að tapa með að sanna mig í þessu nýja starfi. Búið er að breyta uppröðun og fleiru á Framkvæmdadeildinni til að vinnuaðstaðan verði sem best. Ég er samt ekki búin að segja skilið við Starfsmannaþjónustuna, þar þarf að klára ýmis verkefni áður en það verður.

 Annars þá hefur verið svo mikið að gera í vinnunni undanfarinn hálfan mánuð að það hefur ekkert verið gert annað en vinna og sofa. Ég er nú samt farin að hugsa um að skrifa á jólakortin og svona. Jólaföndrið og það sem ég er að mála  bíður aðeins betri tíma (kannski í næstu viku) Þannig að það er bara bjart framundan. Hlakka líka orðið mikið til að fara til Reykjavíkur eftir tvær vikur er komin í virkilega þörf fyrir að knúsa bæði stóru og litlu stelpurnar mínar þar. Þó ég tali við þær báðar nánast á hverjum degi í síma þá nægir mér það ekki. Ég hef ekki séð litlu fjölskylduna í bráðum 2 mánuði og það er of langt.

Nú er tími jólahlaðborða og tónleika að fara af stað. Við fengum boð á jólahlaðborð hjá vinnunni hans Sigurgeirs í gær en því verðum við að sleppa því það er 30 nóvember en þá verðum við í Rvík. Við förum aftur á móti með starfsmönnum Ráðhúss Akureyrarbæjar á jólahlaðborð þann 7. desember svo ætlum við á tónleika með frostrósum þann 6. desember í Glerárkirkju. Líst vel á þessa dagskrá.

Jæja ætla að láta þetta duga í bili

Kveðja úr snjókommuni hér fyrir norðan.


Smá stikkorð

Búin að vera í vinnunni frá morgni til kvölds undanfarið. Fór í leikfimi á réttum tíma á mánudag, svaf á mínu græna á miðvikudag og mætti hálftíma of seint í morgunn. Náði þessu nú samt og fékk mér kaffi með Rögnu og fleirum eftir spriklið. Ég er nefnilega mikið fljótari að greiða mér og sparslaWink . Kann ekki á öll þessi krem og dót sem þær nota þessar skvísur, held að komin sé tími til að fara á námskeið í þessu.  Um helgina verður eitthvað unnið og svo er kaffihlaðborð hjá Karlakórnum á sunnudag upp í Lóni og þangað stefni ég á að fara. Allavega þarf ég að gera heitan rétt fyrir það.´

Það hlýtur að koma ritgerð hér bráðum en þetta áttu bara að vera stikkorð.

Góða helgi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband