13.4.2010 | 08:26
Aldurinn segir til sín.
Dagurinn í dag er dagur til að rifja upp. Í dag eru nákvæmlega þrjátíu ár síðan hún Halldóra Friðný fæddist. Því á ég barn á fertugsaldri þegar þessi dagur er liðinn. Skrítið. Stundum þarf maður að minna sig á að maður ber ekki lengur ábyrgð á henni. Hún er jú fullorðin gift og á tvær yndislegar dætur. Menntaður læknaritari og vinnur sem skrifstofustjóri hjá krabbameinslæknunum á LSH.
Helginni verður eytt með þessum elskum og hlakka ég mikið til. Leikhús og fl. framundan
8.1.2010 | 19:45
Jól og áramót
Það er ekki hægt að segja annað en jól og áramót hafi verið góð hjá okkur skötuhjúunum. Við eyddum jólunum í Reykjavík. Það er nú samt skrítið að fara svona að heiman um jólin. Enda höfum við ekki verið annarstaðar á aðfangadag í 27 ár þar til nú. Við vorum öll saman hjá Halldóru og Dúa á aðfangadag. Það var sko handagangur í öskjunni þar þegar farið var að opna pakkana, litlu skvísurnar áttu bæði marga og stóra pakka. En þetta gekk allt vel. Á jóladag var svo komið saman hjá Binna og Ágústu og þar haldið upp á níutíu ára afmæli tengdapabba, sem átti reyndar afmæli á aðfangadag. Þar var stórfjölskyldan saman komin að undanskyldum börnunum hans Ágústar heitins. Hangikjöt var á borðum þar eins og vera ber á jóladag. Allavega er það siður hjá okkur að borða hangikjöt á jóladag.
Annan í jólum hittumst svo við systkinin börn makar og barnabörn hjá Guðrúnu systur þar sem mamma og pabbi voru auðvitað líka. Þar borðuðum við öll saman og áttum góða dagsstund saman. Reyndar má geta þess að langt er liðið síðan allur hópurinn hittist síðast eða rúm fimmtán ár. Það var á sextíu ára afmæli pabba.
Við áttum góða daga í Reykjavík en komum svo norður seint um kvöld 29. des. Við eyddum svo áramótunum hér heima í rólegheitum. Bara ljúft.
8.1.2010 | 18:42
Stiklur ársins 2009
r var vagninn reyndar vígður og sváfum við sjö í honum. Greinilega gott pláss þar.
Í sumarfríinu fórum við suður á land upp í Landmannalaugar í dagsferð og svo vorum við nokkrar nætur að Laugalandi í Holtum. Aðalheiður Karen var með okkur þar.
Halldóra Friðný kom svo keyrandi norður með Jóhönnu Kristínu í samfloti með okkur. Það var skroppið á Húsavík og í Kelduhverfi, sem dótturinni finnst algjörlega nauðsynlegt. Fiskidagurinn var svo tekinn með trompi og dvalið á Dalvík í tjaldvagninum. Á haustdögum var svo blásið til veislu í tilefni af hálfrar aldar afmæli húsfreyjunnar.Reyndar var afmælisdeginum sjálfum varið með foreldrum hennar austur á Héraði, Þar dvöldum við í sumarhúsi að Miðhúsum og heimsóttum bæði Kárahnjúka og Seyðisfjörð. Borðuðum líka dýrindis hreindýrasteik á Kaffi Nielsen á Egilsstöðum.
Síðan var boðið til veislu í Lóni sem konan er hæst ánægð með. Seinni hluta nóvember kom svo bakslag í fjölskylduna þar sem faðir húsfreyju fór í hjartaþræðingu og var kyrrsettur á sjúkrahúsinu, þar sem miklar stíflur voru í þeim gamla en hann er seigur karlinn sá og er nú á bata vegi eftir stóran hjartaskurð. En gerðar voru fimm hjáveitur á stóru æðunum til hjartans. Um jólin verður svo faðir húsbóndans níræður og ætlar fjölskyldan að hittast í Reykjavík á jóladag og fagna með honum. Það verður því breyting á jólahefðinni hér og dvalið í höfuðborginni um jólin. Það er svo sem ekki leiðinlegt því þar eru jú dóttirin , tengdasonurinn, dótturdæturnar og svo systkini okkar beggja. Einnig verða foreldrar húsfreyju fyrir sunnan.Þetta eru nú svona helstu punktar ársins. Við einfaldlega njótum þess að vera til.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2009 | 07:57
Hún mamma mín á afmæli í dag.
Mamma er sjötíu og þriggja ára í dag. Til hamingju með daginn mamma mín. Þessum degi fagnar hún auðvitað í fæðingarbæ sínum Reykjavík. Ekki það að hún eigi heima þar en hún er hjá gamla sínum. Allt er til betri vegar þar hann útskrifast sennilega á morgunn. Jibbí. Helgin var pínu tregafull með hann. Hann fékk hita sem menn eru hræddir við eftir svona aðgerðir því hiti getur verið ávísun á ígerð eða sýkingu. Sem betur fer var ekki um neitt svoleiðis að ræða og þegar ég talaði við hann í gærkveldi var hann mikið hressari en hann hefur verið.
Helginni eyddi ég að mestu í jólaundirbúning hef aldrei áður verið búin að skreyta svona mikið um miðjan desember en ákvað að vera snemma í þessu þetta árið. Nokkrar smákökur eru komnar í bauka og svo er búið að skrifa hluta jólakorta og svo og svo. Það sem toppaði samt var að setjast niður og mála. Nú verður næstu kvöldum eytt í það. Ég elska að mála hvort heldur er á kerti, keramik eða bara eitthvað annað Við fengum líka góða gesti frá Húsavík á laugardaginn, alltaf gaman þegar góðir vinir rekast inn.
Ég talaði við stelpurnar mínar í Reykjavík sú stærsta (dóttirin) tjáði mér að tengdasonurinn fer í brjósklos aðgerð næsta föstudag sem er þá 18. desember. Þannig að þá verður hann óvirkur í tiltekt og umönnun dætranna um jólin. Ekki gaman það. En svona er þetta bara. Vonandi verða þá amma og afi til einhvers.
Eigið ljúfan dag, það ætla ég að gera
11.12.2009 | 11:41
Allt að koma
Mikið er maður glaður núna. Pabbi styrkist með hverjum deginum sem líður og morgunn hringdi hann í Halldóru þá var hann farið að langa til að sjá hana fá blöðin og svo auðvitað að láta raka sig. Nú er hann semsé nýrakaður og sennilega langt kominn með að lesa blöðin.
Annars er allt gott að frétta af okkur hér. Jólaundirbúningur í góðum gír, þ.e. það sem verður ógert verður bara ógert lífið er dýrmætara en jólastress. Meira síðar
9.12.2009 | 10:18
Yndislegt líf
Það er yndislegt að vakna við tifandi fótatak hjá litlum skvísum sem skríða uppí rúm til ömmu sinnar Jóhanna Kristín er meira að segja farin að koma sjálf og skríða uppí. Þessi sæla er samt á enda í bili því ég fer heim í dag. Það var ljúft að koma til pabba í gær þar sem hann mókti eftir að hafa verið vakinn af svæfingunni um morguninn. En það er allt á góðri leið og hann er með húmorinn í lagi. Nú er maður fullur bjartsýni á framhaldið svo mér finnst ég mjög rík kona og við í raun rík fjölskylda. Það er ekki sjálfgefið að eiga báða foreldra sína á lífi þegar maður er orðin fimmtugur en það eigum við bæði skötuhjúin.
Jæja ég ætla svo sem ekki að pára meira hér í bili. Er að skrifa jólakort og ætla að ath. hvort ég fæ að kíkja á pabba áður en ég fer í flug. Þó svo að það sé gott að vera hjá sínu liði í Reykjavík þá verður yndislegt að koma heim því auðvitað sakna ég karlanna minna. Hlakka til að hitta þá þegar ég kem norður
8.12.2009 | 00:26
Spennufall eða hvað?
Jú það má alveg segja að það hafi orðið spennufall hér í dag. Pabbi fór í hjartaaðgerðina í morgunn og gekk hún bara vel. Það var gerð hjáveita á fjórum stöðum en ekki þremur eins og við héldum að yrði gert í upphafi. Aðgerðin var gerð á sláandi hjarta sem þýðir að hann var ekki settur í hjarta og lungna vél, það er talið að eftir batinn verði hraðari ef þetta er hægt. Á fundinum í gær var okkur sagt að hann yrði vakinn seinnipartinn í dag en þeir tóku ákvörðun um að láta hann sofa eitthvað áfram og þegar þetta er ritað er ekki búið að vekja hann og óvíst að það verði gert fyrr en í fyrramálið. Vonandi gengur það samt vel. Mamma fær að heimsækja hann þegar hann verður kominn af gjörgæslu en það er ekki æskilegt að komi fleiri en einn í einu til hans í byrjun og þá bara í 5 - 10 mín í senn. Hér er semsagt enn beðið fyrir góðum bata Ég vonast líka til að fá að sjá hann áður en ég flýg aftur norður á miðvikudag. Jæja ég ætla ekki að setja meira hér núna en hef væntanlega meiri upplýsingar á morgunn.
Kveðja úr borginni
30.11.2009 | 20:48
Jólahlaðborð nr. 1
Flugið heim á laugardag var fínt. Engar dýfur eða neitt. Sigurgeir sótti mig á flugvöllinn þessi elska, við áttum líka eftir að græja eitthvað heima fyrir kvöldið. Nokkrir vinnufélagar hans ætluðu að koma til okkar áður en haldið yrði á jólahlaðborð á KEA. Þetta gekk nú allt vel nema hvað maturinn vildi ekki niður hjá mér heldur vildi hann leita upp;) Ég mátti sem sagt yfirgefa samkomuna kl 20:30 komin með ælupestinaþannig að jólahlaðborðið fór fyrir lítið. Hvað um það ég er orðin frísk og hlakka bara til að fara í Hangikjöt hjá Karlakórnum annað kvöld.
Á morgun koma væntanlega fréttir af aðgerðardag hjá pabba. Ég er alltaf að vona að aðgerðin verði gerð sem fyrst svo hann þurfi ekki að veltast lengi þarna á spítalanum þar sem menn geta magnað upp spennu og kvíða. Illu er best aflokið segir einhverstaðar og ég er sammála því.
Í vinnunni er nóg að gera og í dag hófst líka hinn árlegi leynivinaleikur sem er alltaf í vikunni fyrir jólahlaðborð. Þetta er alltaf spennandi hver er vinur hvers osfrv. Ég eignaðist yndislegan vin í dag sem ég hef svo sem enga hugmynd um hver er en hann gaf mér spil í dag sem ég þakka bara kærlega fyrir. Anna Jóna samstarfskona mín var líka algjör snillingur í að setja jólaskrautið á sinn stað í vinnunni í dag á meðan lyfti ég ekki litlafingri til hjálpar. Reyndar af því að ég var með verkefni sem ég þurfti nauðsynlega að klára í dag. Ég kunni vel að meta dugnaðinn í henni
Jæja nú ætla ég að fara að gera smjörkrem inn í mömmukossa sem eru ómissandi á mínu heimili um jólin. Þetta verður nú fyrsta jólköku gerðin á þessu heimili fyrir þessi jól. En vonandi fer þetta allt að gera sig.
Ekki meira héðan í bili
28.11.2009 | 09:56
Fljótt skipast veður í lofti
Jæja nú sit ég í Safamýrinni hjá Halldóru og Dúa og bíð þess að fara í flug norður. Vona að ég fái ekki ælupestina sem herjar á heimilisfólkið hér þ.e. nema Jóhönnu Kristínu hún er spræk.
Tildrög þess að ég æddi suður voru þau að pabbi fór í hjartaþræðingu á fimmtudagsmorguninn og út úr því kom að þrjár aðal kransæðarnar að hjartanu eru mikið stíflaðar og þarf að gera hjáveituaðgerð við þær allar. Hann verður inniliggjandi fram að aðgerð og fær ekki að fara út af spítalanum. Aðgerðin verður þó ekki gerð fyrr en seinnipart næstu viku eða þá í þarnæstu viku. Tímann fram að því á að nota til rannsókna og fræðslu. Það þarf að testa vel hjarta, lungu og nýru. Gamli tekur þessu nú með jafnaðargeði segir að þetta sé eins og að gera við vél þetta sé bara lifandi vél. Við fengum nú reyndar ekki að vita þetta svona nákvæmlega fyrr en á fjölskyldufundi með lækninum í gær, en ég fór fram á slíkan fund, Það er ekki hægt að upplýsa nánustu aðstandendur ekki um hvað er í gangi. Mamma fór ekki með honum suður þannig að þegar þær upplýsingar bárust að hann þyrfti í aðgerð ákvað ég að keyra hana suður svo hún hefði bílinn í Reykjavík því þetta er langt ferli sem nú fer í gang og betra fyrir hana að vera sjálfbjarga í höfuðlborginni.
Það er ekki ólíklegt að maður eigi eftir að brenna suður aftur þegar aðgerðin fer í gang en það kemur allt í ljós. Þessir dagar sem framundan eru fara í að bíða og vona að allt gangi vel sem ég hef fulla trú á að verði.
En nóg í bili. Þarf að pakka fyrir flugið heim
25.11.2009 | 08:18
Maggi Lór. 75 ára í dag
Þá er komið að því Pabbi er sjötíu og fimmára í dag. Einu sinni fannst mér þetta rosa hár aldur en í dag eru þetta bara unglingar Þessum merka afmælisdegi eyðir gamli í Reykjavík byrjar á rannsóknum á Landspítalanum svo hlýtur hann þó að gera eitthvað skemmtilegt. Sennilega má hann þó ekki fá sér góðan mat eða kökur því hjartaþræðing bíður hans á morgunn.
Við fórum í afmæli á föstudagskvöld þar sem var líf og fjör. Fullt af skemmtilegu fólki, hljómsveitin Flakkarar eða Geislar steig á stokk eftir fjörutíu ára fjarveru en afmælisbarnið spilaði með þeim á sínum tíma. Þetta var bara gaman.
Það eru komin jólaljós í alla glugga hjá mér og þeir auðvitað orðnir hreinir. Úti jólaseríurnar fóru líka upp. Síðustu helgi var sem sagt varið í að þvo glugga og gardínur sem og setja upp jólaljós. Fórum líka austur á Húsavík þar sem bæði inni og úti jólaljós fóru upp.
Heimir og Þorsteinn þurfa að losa íbúðina sem þeir hafa leigt núna um mánaðarmótin og þá vantar íbúð til að flytja í. Það þykir ekki mjög spennandi að flytja aftur heim til mömmu og pabba en kannski endar nú samt með því
Fyrsta jólahlaðborðið er á næsta laugardag en þá verður farið með vinnufélögum Sigurgeirs og möku á KEA. Það hefur oft verið farið þangað og það klikkar aldrei. Hlakka bara til.
Ekki meira í dag. Eigið bara ljúfan og góðan dag.